Slippurinn Akureyri hefur gert samning við rússneska eigendur flutningaskipsins Ölmu, um viðgerð á skipinu. Alma missti stýrið við innsiglinguna í Hornafjarðarhöfn í síðasta mánuði og var í kjölfarið dregin til hafnar. Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri Slippsins segir að hér sé um nokkuð stórt verk að ræða en skipið er væntanlegt til Akureyrar frá Fáskrúðsfirði um miðjan mánuðinn og verður hjá Slippnum fram yfir áramót.
Anton segir að verið sé að smíða nýtti stýri og stýrisstamma erlendis en að ekki sé endanlega ljóst hvenær sá búnaður kemur til Akureyrar, þar hann verður settur undir skipið. Einnig verða framkvæmdar viðgerðir á bol skipsins og skrúfubúnaði. Flutningaskipið Alma er rétt tæplega 100 metra langt og um 16 metrar á breidd. Anton segir að verkefnastaðan hjá Slippnum sé þokkaleg um þessar mundir og að ástandið verði svipað næstu tvo til þrjá mánuði en að þá muni verkefnastaðan batna til muna.