Flugsafn Íslands, Akureyrarflugvelli og Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins/Flugskóli Íslands Reykjavík, undirrituðu í dag samstarfssamning um víðtækt samstarf í menntun flugvirkja á Íslandi. Samningurinn er jafnframt gerður í samstarfi við Lufthansa Resource Technical Training og með góðum stuðningi íslenskra flugrekenda og hagsmunaaðila í flugrekstri. Til þessa hefur flugvirkjanám ekki verið í boði á Íslandi, en s.l. haust hófst kennsla í flugvirkjun í Tækniskólanum/Flugskóla Íslands.
Flugsafn Íslands hyggst efla aðgengi og auka vitund um Flugsafnið með því að taka þátt í menntasamstarfi oggerasafnið að lifandi vettvangi fyrir leikna og lærða og verða áfram mikilvægur þáttur í flugsögu Íslands á lifandi hátt. Safnið mun leggja til safnmuni er tengjast vélbúnaði flugvéla til menntunar verðandi flugvirkjum, en safnið er gríðarlega vel búið flugvélum og flugvélahlutum sem henta til verklegrar kennslu. Þá mun safnið hlutast til um viðunandi aðstöðu til bók- og verknáms á Akureyrarflugvelli fyrir þá þætti námsins sem fram fara á Akureyri.
Tækniskólinn/Flugskóli Íslands er leiðandi í starfþjálfun og menntun einstaklinga á sviði flugmála, sem og annarra greina. Samstarfssamingurinn er liður í að efla tengingu skólans við atvinnulífið og hagsmunaaðila sem tengjast námsgreinum sem í boði eru í skólanum. Tækniskólinn er einkarekinn skóli og er rekstrarfélagið í eigu aðila atvinnulífsins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka iðnaðarins, Samorku, Samtaka íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, segir í frétt frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.