Flugsafn Íslands á Akureyri 10 ára á föstudag

Flugsafn Íslands er 10 ára á föstudag en safnið var stofnað þann 1. maí 1999 og hét þá Flugsafnið á Akureyri. Í tilefni þessara tímamóta verður safnið opið á afmælisdaginn, 1. maí, frá kl.. 13:00 til kl. 17:00. Laugardaginn 2. maí verður Flugsafnið opið frá  kl. 10:00 til kl. 17:00 í tilefni af Eyfirska Safnadeginum. Flugsafnið er sjálfseignarstofnun og er hlutverk þess að safna, varðveita, og sýna muni sem tengjast  flugi á Íslandi, sögu þess og þróun.  

Einnig er það markmið safnsins að safna myndum sem tengjast flugsögunni og skrá þær. Aðalhvatamaður að stofnun safnsins var Svanbjörn Sigurðsson og hefur hann verið safnstjóri frá upphafi. Með Svanbirni unnu ýmsir áhugamenn um íslenska flugsögu og varðveislu gamalla flugvéla, en stofnaðilar safnsins voru Vélflugfélag Akureyrar, Svifflugfélag Akureyrar, Flugmódelfélag Akureyrar, Flugfélag Íslands, Flugfélagið Atlanta, Flugleiðir, Íslandsflug og Íslenska flugsögufélagið. Á aðalfundi Flugsafnsins á Akureyri sem haldinn var 26. febrúar 2005 var samþykkt að breyta nafni safnsins í Flugsafn Íslands, enda endurspeglar það betur markmið safnsins.

Safnið var opnað með formlegum hætti þann 24. júní árið 2000 og var þá haldin í fyrsta sinn svokölluð flughelgi Flugsafnsins í samvinnu við Flugmálafélag Íslands. Þar var margt á dagskránni m.a. Íslandsmót í listflugi, listflugsýningar, fallhlífastökk, módelflug, útsýnisflug með þyrlu og fleira. Þessi flughelgi safnsins og Flugmálafélagsins hafa síðan verið árlegur viðburður. Núna í ár er ráðgert að Flughelgi Flugsafns Íslands verði haldin dagana 20. og 21. júní.

Fyrstu árin var Flugsafnið til húsa í 450 fermetra flugskýli sem leigt var af Íslandsbanka. Þetta húsnæði var síðar keypt. En það liðu ekki mörg ár áður en það flugskýli var orðið of lítið. Haustið 2006 var hafist handa við að byggja núverandi húsnæði Flugsafns Íslands. Nýja húsið er rúmlega 2200 fermetrar að grunnfleti og er þetta fimmföld stækkun á húsnæði. Fyrsti viðburðurinn sem fram fór í þessu nýja húsi var 70 ára afmælishátíð Icelandair þann 3. júní 2007. Þann sama dag voru sjötíu ár liðin frá stofnun Flugfélags Akureyrar.

Flugsafn Íslands er opið alla daga vikunar frá 1. júní til 31.ágúst frá kl. 11:00 til kl. 17:00. Yfir vetrarmánuðina er opið alla laugardaga frá kl. 11:00 til kl. 17:00. Safnið er svo opið á öðrum tímum eftir samkomulagi. Hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar um safnið og sýningargripi þess á vefsíðu þess, http://www.flugsafn.is/.

Nýjast