Flugmönnum fjölgað um fjóra hjá Norlandair

Flugfélagið Norlandair tók til starfa á Akureyri þann 1. júní sl. í kjölfar þess að Flugfélag Íslands ákvað hætta rekstri Twin Otter flugvéla félagsins og áætlunarflugi frá Akureyri til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar. Norlandair, sem er í eigu fyrrverandi starfsmanna FÍ og fjárfesta, tók yfir rekstur Twin Otter vélanna og áætlunarflug FÍ á flugleiðunum frá Akureyri til áðurnefndra þriggja staða, sem rekið er með stuðningi frá ríkinu.  

Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair segir að meginstarfsemi félagsins sé þó í leiguflugi á Grænlandi en hins vegar sé lítið um vera þar í svartasta skammdeginu, í nóvember, desember og janúar. Síðustu mánuði hefur verið unnið að því að ganga frá kaupunum á tveimur Twin Otter flugvélum FÍ og flugskýli félagsins á Akureyrarvelli, auk þess sem stóra flugskýli FÍ hefur verið tekið á leigu. Þá hefur verið unnið að því að afla tilskilinna leyfa til reksturs félagsins. Að sögn Friðriks eru starfsmenn félagsins 10 um þessar mundir en að unnið sé að því að ráða 4 flugmenn til viðbótar. Þá stendur til að leigja eina Twin Otter flugvél næsta sumar, svo framarlega að verkefnastaðan verði viðunandi.

Friðrik færði Mæðrastyrksnefnd Akureyrar fjárstyrk að upphæð 500.000.- krónur, fyrir hönd félagsins í vikunni. Í stað þess að fara á jólahlaðborð með starfsfólk, gefa gjafir, eða senda jólakort, var ákveðið að styrkja nefndina.

Nýjast