Fljótum langt á öflugum matvælaiðnaði á svæðinu

„Það sem bjargar okkur hér á svæðinu er gríðarlega öflugur matvælaiðnaðar og eins og staðan er sækir fólk í meira mæli en áður í innlend matvæli.  Vegna þessa er ástandið ekki eins slæmt og það hefði getað orðið.  Við fljótum ansi langt á því hversu kröftugur framleiðslu- og matvælaiðnaðurinn er á Eyjafjarðarsvæðinu," segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju.  

Hann segir menn nú sjá það svart á hvítu hversu mikilvægir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður,  fiskveiðar- og vinnsla eru svæðinu. „Það hefði illa verið komið fyrir okkur ef við hefðum ekki þessa sterku stöðu í úrvinnslu í tengslum við grunnatvinnuvegina.  Þetta er okkar stóriðja," segir Björn. Hann segist þó kvíða haustinu og komandi vetri, ljóst sé að erfitt verði framundan.  Verst sé ástandið í byggingariðnaði og ekki útlit fyrir að það lagist á næstunni.  „Ætli við förum ekki í gegnum dýpsta öldudalinn á komandi vetri," segir Björn.  Hann segir óvissu framundan t.d. varðandi vexti og framkvæmdir og því þori menn ekki að fara af stað með neitt.  „Það er fullt af verkefnum sem hægt er að hefja, en menn treysta sér ekki af stað í þessu ástandi.  Það vantar innspýtingu og ég bind vonir við að nú í kjölfar þess að stöðugleikasáttmáli hefur verið undirritaður að menn bretti upp ermar og fari af stað," segir hann.

Umræða um  gerð Vaðlaheiðaganga gefi byr í seglinn og Kristján Möller eigi heiður skilinn fyrir að ýta verkefninu af stað.  „En það er alveg dæmigert fyrir umræðuna á suðvesturhorni landsins, sem er ráðandi í þjóðfélagsumræðunni, að þegar eitthvað á að gera úti á landi ætlar allt um koll að keyra.  Þetta er villt umræða og vitlaus.  Þessi umræða hefði ekki komið upp ef Suðurlandsvegur hefði verið framar í forgangsröð. Hefðum við gagnrýnt framkvæmdir við hann og bent á Vaðlaheiðagöng, hefði það verið kalla landsbyggðarvæl," segir Björn.

Nýjast