Besta veður var að morgni dags, sunnan gola, bjartviðri og 5 stiga hiti og hélst svo fram yfir hádegi þegar fárviðrið skall á afar snögglega en versta veðrið stóð yfir í um klukkustund, "og mátti heita ófært hverjum manni," segir Sverrir Pálsson í fréttapistli sem hann sendi Morgunblaðinu. Heldur tók að draga úr veðurhamnum eftir hádegið en þó var byljótt og vindahryðjur gengu yfir fram eftir degi. Um kvöldið var svo komið hörkufrost, 15 til 17 gráður.
Milljóna tjón varð af völdum veðursins. Mest í kjölfar þess að þakhæðin fauk gjörsamlega af sælgætisverksmiðjunni Lindu og fauk þakið um 100 til 200 metra suður fyrir húsið. Skall sumt niður á bersvæði en annað lenti á sambýlishúsi skammt frá og einnig á bílum í nágrenninu. Þakið hvíldi á sverum stálbitum sem haldið var upp með stálstoðum sem boltaðar voru niður í steinloft. Annar bitinn var eftir skakkur og skældur, en hinn fauk með þakinu og kengbognaði eins og vírspotti þegar niður kom. Birgðageymsla verksmiðjunnar var á þakhæðinni og er haft eftir Eyþóri Tómassyni verksmiðjustjóra að nýlega hafi verið fluttir þangað miklar hráefnisbirgðir, m.a. um 700 sekkir af sykri. Tjón vegna skemmda nam milljónum króna, en birgðirnar fuku að mestu út í veður og vind og fennti í kaf, en menn unnu að björgum verðmæta þegar veðri slotaði.
Mikið annríki var hjá lögreglu í veðurofsanum, en m.a. voru börn nýfarin heim í hádegismat í grunnskólum bæjarins þegar veðrið skall á og var í mörgum tilfellum óvissa um afdrif þeirra þegar þau skiluðu sér ekki heim. Mörg barnanna leituðu skjóls í húsum hér og þar á leiðinni heim, m.a. í sundlaugarbyggingunni, íþróttahúsinu og iðnskólanum sem þá var íbyggingu. Matarhlé var ekki hafið í Gagnfræðaskólanum og voru nemendur þar kyrrsettir í skólanum þar til veður gekk niður.
Þess er getið að Steindór Steindórsson skólameistari hafi fallið í hálku í námunda við Menntaskólann og fótbrotnað illa og hafi þurft að hírast nokkurn tíma í því ásigkomulagi þar til hann fannst. Tveir aldraðir menn voru að niðurlotum komnir við Tryggvabraut, kaldir og máttvana þegar lögregla fann þá fyrir tilviljun, fauk jeppi út af vegi í námunda við Skíðahótelið í Hlíðarfjalli, tveir menn í sem í honum voru sluppu ómeiddir en gekk illa að finna skálann þó hann væri aðeins í 50 metra fjarlægð. Tveir timar liðu þar til annar þeirra komst í hús en þá voru björgunarsveitir komnar í viðbragðsstöðu að leita hans.
Stór yfirbyggður flutningabíll sem stóð við Skúta ofan Hörgárbrautar tókst á loft og fauk út á þjóðveginn og teppti með því mest alla umferð. Alls skemmdust um 30 bílar í ofsaveðrinu. Miklar skemmdir urðu einnig á húsum hér og hvar um bæinn og víða mátti sjá þök liggja í húsagörðum.