Fjórir þræðir einkenna starf Möguleikamiðstöðvarinnar

"Þetta fer mjög vel af stað, við erum enn að móta starfið og kynna það sem í boði er hér hjá okkur," segir Hilda Jana Gísladóttir verkefnisstjóri hjá  Möguleikamiðstöðinni  í Rósenborg, en hún var opnuð nýlega.  Miðstöðin er sérstaklega ætluð fólki í atvinnuleit og er hlutverk hennar að þjóna þeim sem vilja nýta tímann til fulls.  

Hilda Jana segir að starfseminni verði skipt upp í þemavikur; atvinuþátttöku, nýsköpun, félagsstarf og menntun.  Byrjað verður á atvinnumálunum 20. apríl  nk. og þá verða kynningar í boði alla daga vikunnar, frá kl. 10 til 11, m.a. um áhrif atvinnumissis, gerð ferilskráa, atvinnuviðöl og þáttakendum verður boðið að taka áhugasviðspróf.  Næstu viku á eftir verður sjónum beint að nýsköpun, þá að félagsstarfi og loks að menntun.

"Við höfum svo hugsað okkur að láta dagskrána rúlla áfram, nota það sem virkar vel og bæta við eftir þörfum, en þessi atriði verða rauðu þræðirnir í okkar starfsemi," segi Hilda Jana.  Hún nefnir að allir séu boðnir og búnir að leggja hönd á plóg, sem dæmi má nefna að Leikfélag Akureyrar hefur boðist til að halda ókeypis leiklistarnámskeið fyrir þátttakendur, Rauði krossinn að efna til skyndihjálparnámskeiðs, og þegar hefur verið haldið sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur og karla.  Þá er fyrirhugað að efna til samstarfs við átakið Hreyfing og útivist sem þegar er komið vel af stað.

"Við viljum gjarnan sjá fleiri koma í heimsókn til okkar, en við því er auðvitað að búast að starfsemi af þessu tagi fari hægt af stað.  Þetta er möguleiki sem stendur fólki til boða og ég er fullviss um að margir munu nýta sér þetta tækifæri þegar við höfum náð að kynna þá fjölbreyttu starfsemi sem við ætlum að bjóða upp á," segir Hilda Jana. Möguleikamiðstöðin er opin alla virka daga frá kl. 9 til 13.

Nýjast