Fjörður sigraði Bikarkeppni ÍF

Íþróttafélagið Fjörður úr Hafnarfirði sigraði örugglega í Bikarkeppni Íþróttasambands fatlaðra sem haldin var í Sundlaug Akureyrar sl. laugardag. Mótshaldið var í umsjón Óðins og gekk vel í alla staði. Um 60 keppendur frá fjórum félögum voru skráðir til leiks. Fjörður var handhafi bikarsins frá því í fyrra og ætlaði greinilega ekki að láta hann af hendi.

Fjörður hlaut samtals 13.122 stig og Íþróttafélagið Ösp hlaut 8.745 stig og náði 2. sætinu örugglega. Baráttan var harðari um bronsið og að lokum munaði aðeins 60 stigum á Íþróttafélagi Fatlaðra í Reykjavík, sem hlaut 5.768 stig, og Sundfélaginu Óðinn með 5.708 stig.

Nýjast