Fjölmenni fagnaði 25 ára afmæli Norðurorku

Frá vinstri: Árni Helgason verktaki sem sá um lagningu 400m útrásarlagnarinnar, Stefán H. Steindórss…
Frá vinstri: Árni Helgason verktaki sem sá um lagningu 400m útrásarlagnarinnar, Stefán H. Steindórsson sviðsstjóri veitu- og tæknisviðs NO, Helgi Jóhannesson fyrrverandi forstjóri NO, Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku, Gísli Jón Kristinsson sem sá um arkitektúr hreinsistöðvarinnar og Haraldur Jósefsson byggingastjóri hreinsistöðvarinnar. Myndir Aðsendar

Það var heilmikið um að vera hjá Norðurorku síðastliðinn laugardag en þá fór fram formleg opnun á hreinsistöð fráveitu auk þess sem afmælishátíð var haldin á Rangárvöllum í tilefni af 25 ára afmæli Norðurorku.

Listaverk eftir 5 ára börn

Hreinsistöð fráveitu var gangsett haustið 2020 en vegna samkomutakmarkana sem þá voru í gildi þurfti að fresta formlegri opnun. Í tilefni af 25 ára afmæli Norðurorku var stöðin formlega opnuð sl. laugardag. Þar flutti Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku ávarp og í tilefni opnunarinnar höfðu börn á Leikskólanum Hólmasól málað listaverk á borða sem festur var upp umhverfis þrjú sigti sem sía rusl úr fráveituvatninu. Listaverkið setti svo sannarlega svip sinn á opnunarhátíðina en á því má sjá fjölbreytt og litskrúðugt lífríki í tandurhreinum sjó. Sem á virkilega vel við þar sem sigtin þrjú hafa síað rúmlega 150 tonn af rusli úr fráveituvatninu, sem annars hefðu endað út í sjó.

Hvað má fara í klósettið og hvað ekki

„Við tökum reglulega á móti börnum úr leik- og grunnskólunum sem heimsækja hreinsistöðina til að fræðast og því fannst okkur vel við hæfi að börn á leikskólum starfssvæðisins tækju þátt í að opna hreinsistöðina formlega. Þessar heimsóknir eru alltaf skemmtilegar, börnin eru ófeimin við að spyrja spurninga af ýmsu tagi, auk þess sem þau eru dugleg að bera út boðskapinn og kenna okkur fullorðna fólkinu þegar heim er komið, til dæmis hvað má fara í klósettið og hvað ekki,“ segir Gunnur Ýr Stefánsdóttir sviðsstjóri hjá Norðurorku.

Fjör á Rangárvöllum

Á laugardaginn var einnig blásið til afmælishátíðar á Rangárvöllum þar sem gestir og gangandi gátu komið og kynnt sér starfsemi fyrirtækisins. Meðal þess sem boðið var uppá voru fróðlegir fyrirlestrar af ýmsu tagi, lifandi tónlist, grillaðar pylsur og hoppkastali svo eitthvað sé nefnt. Þá var einnig vinsælt að fá að setjast upp í tæki fyrirtækisins, af ýmsum stærðum og gerðum, sem komið hafði verið fyrir utanhúss auk þess sem ungir sem aldnir spreyttu sig á tveimur heimatilbúnum hjólum og gátu þannig annarsvegar kveikt á peru og hins vegar dælt vatni.

„Þannig að þrátt fyrir að veðrið hafi verið ansi haustlegt á laugardaginn og rigning hafi vissulega verið ríkjandi þá virtust öll þau sem hingað mættu skemmta sér vel og hafa vonandi farið heim margs vísari um afmælisbarn okkar allra, Norðurorku,“ segir Gunnur og bætir við að Norðurorka þakki þeim fjölmörgu sem kíktu við, og fögnuðu deginum með félaginu, kærlega fyrir komuna.

Nýjast