Fjölmargar athugasemdir gerðar vegna aðalskipulagsins

Mynd/Hörður Geirsson
Mynd/Hörður Geirsson

Alls bárust 44 athugasemdir frá 63 íbúum vegna nýs aðalskipulags Akureyrarbæjar sem kynnt var nýverið. Þá hafa borist 17 umsagnir frá stofnunum og félögum en frestur til athugasemda rann út þann 20.apríl sl. Eins og Vikudagur hefur fjallað um síðustu vikur eru ýmis mál á nýja aðalskipulaginu sem þykja umdeild. Má þar nefna yfirvofandi íbúabyggð í Kotárborgum, þrengingu Glerárgötu og breytingar á Miðbænum. 

Bjarki Jóhannesson, skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, segist fagna því að fólk láti sína skoðun í ljós og geri athugasemdir. „Við erum mjög ánægð
með þennan afrakstur. Til þess var leikurinn gerður, að fá umsagnir og ábendingar á vinnslustigi, og ég er að byrja á að fara í gegnum þetta allt,“
segir Bjarki.

Hann segir næstu skref vera að leggja samantekt fyrir fund Skipulagsráðs þann 10. maí.

„Síðan verður unnið úr þessu öllu og til verður endurbætt útgáfa af aðalskipulaginu, sem síðan verður lögformlega auglýst í sumar, þegar hún hefur hlotið samþykki skipulagsnefndar og bæjarstjórnar og leyfi Skipulagsstofnunar til að auglýsa,“ segir Bjarki.

Nýjast