Töluverð fjölgun hefur verið á gistirýmum á Norðurlandi eystra á undanförnum árum. Frá árinu 2010 til 2016 fjölgaði rúmum á hótelum um 78% eða úr 449 í 798 rúm. Sömu sögu er að segja um gistiheimili sem eru rekin árið um kring en rúmum fjölgaði úr 328 í 496 á sama tímabili eða um 51%.
Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um stöðuna á fasteignamarkaðnum á Akureyri.
Ef tilteknir eru allir gistimöguleikar, þ.e.a.s. frá hótelum til skála í óbyggðum, að meðtöldum tjaldsvæðum, þá var fjöldi talinna rúma, skv. gögnum Hagstofu Íslands, samtals 2.197 árið 2016. „Nýtingarhlutfall hefur farið batnandi frá árinu 2013 en fyrir þann tíma var meðalnýtingarhlutfall rúma undir 35% en nálgast að vera nærri helmingur á árinu 2017 eða svipað og árið 2016,“ segir í skýrslunni.