Fjölga á félagslegum leiguíbúðum um 86

Mynd/Hörður Geirsson
Mynd/Hörður Geirsson

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt húsnæðisáætlun sem vinnuhópur um um uppbyggingu á húsnæðismarkaði vann fyrir bæjaryfirvöld og gildir til næstu fjögurra ára, eða til ársins 2021. Á fundi bæjarráðs þann 29. september sl. var ákveðið að stofna verkefnahóp um aðkomu Akureyrarbæjar að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu með því markmiði að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Helstu niðurstöður verkefnahópsins eru þær að skjólstæðingar félagsþjónustunnar verði í forgangi þegar Akureyrarbær tekur ákvarðanir um byggingu eða kaup á íbúðarhúsnæði.

„Eftirspurn eftir félagslegu leiguhúsnæði er meiri en hægt er að anna auk þess sem mikil þörf er á fjölgun á sérhæfðu húsnæði fyrir fatlað fólk og aðra hópa með sérþarfir. Horft skal til félagslegrar blöndunar þegar ákvarðanir eru teknar um staðsetningu félagslegs húsnæðis og uppbyggingu hverfa m.t.t. mismunandi húsagerða. Þessa hefur ekki verið nægilega gætt á undanförnum árum. Félagsleg blöndum hins vegar eykur félagslega aðlögun að samfélaginu og minnkar hættu á útilokun og fátækt. Stuðla skal að virkum leigumarkaði á Akureyri þar sem jafnvægi ríkir í framboði og eftirspurn, leiguverð er ásættanlegt og leigjendur geta búið við öryggi í húsnæðismálum,“ segir í niðurstöðu vinnuhópsins.

Leiguverð hækkað umfram verðlag

Meðalaldur leiguhúsnæði Akureyrarbæjar er hár og gera þarf viðhaldsáætlun vegna elsta hluta þess en þær íbúðir, um 100 talsins, er um 40 ára gamlar. Lagt var til að húsaleiga verði hækkuð til að tryggja meira fjármagn til viðhalds og til auðvelda frekari fjölgun félagslegra íbúða. Sérstakur húsnæðisstuðningur standi þeim til boða sem standa höllum fæti fjárhags- og félagslega þar á meðal stuðningur til foreldra eða forsjáraðila barna yngri en 18 ára sem stunda nám á heimavist eða námsgörðum. Þá kemur fram í niðurstöðum verkefnahópsins að leiguverð á Akureyri sé hátt og hefur hækkað umfram verðlag síðustu ár og það sama á við um fasteignaverð. Þörf sé á ódýru húsnæði bæði fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar, ungt fólk, aldraða og fleiri tekjulága hópa eins og sést á lengd biðlista eftir félagslegum íbúðum.

Fjölga þarf félagslegum íbúðum um 86

Til að átta sig á þörf fyrir félagslegar íbúðir næstu fimm árin var skoðaður fjöldi umsækjanda á biðlista, biðtími og fjöldi íbúða sem er til ráðstöfunar. Gerð var spá um framtíðarþörf fyrir félagslegt húsnæði eftir þjónustuhópum og kemur fram að fjölga þurfi félagslegum leiguíbúðum um 86 íbúðir næstu fimm árin á Akureyri til að mæta uppsafnaðri þörf.  Lagt er til að kannað verði hvort hagkvæmt er að breyta raðhúsunum í Hlíð í almennar leiguíbúðir til að stytta biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum. Þá er lagt er til að farið verði yfir stöðu leigusamninga sveitarfélagsins vegna framleigðra íbúða og húsnæði keypt eða byggt ef þeir fást ekki endurnýjaðir.  Lagt er til að Akureyrarbær veiti stofnframlög til fjárfestingar í 10 almennum íbúðum að meðaltali á ári næstu árin á grundvelli laga um almennar íbúðir.

Nýjast