Fjölbreytt starfsemi hjá Símey í vetur

„Það verður mikið um að vera hjá okkur í vetur, ýmsar námsleiðir í boði auk fjölbreyttra námskeiða á öllum sviðum," segir Erla Björg Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Símeyjar, Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.  Tvær starfsstöðvar eru á vegum Símeyjar, á Akureyri og í námsveri á Dalvík.   

Starfsmenn eru níu talsins, auk framkvæmdastjóra, verkefnastjórar, náms- og starfsráðgjafar, ritarar og bókari.  Allir leiðbeinendur miðstöðvarinnar starfa sem verktakar og hefur fjöldi þeirra verið í kringum hundrað manns á ári. „Starfsemin á Akureyri hefur fram að þessu farið fram á Þórsstíg 4 en það húsnæði er löngu sprungið og nú er verið að byggja við," segir Erla Björg, en eftir að framkvæmdum við viðbygginguna lýkur mun Símey hafa yfir að ráða helmingi stærra húsnæði en nú. Þrjár kennslustofur bætast við þær sem fyrir eru auk þess sem kaffi- og vinnuaðstaða nemenda í húsinu snarbatnar.

Erla Björg segir að nú í haust fari af stað um 20 námsleiðir frá FA sem MMR hafi vottað að megi meta til eininga á framhaldsskólastigi, en um er að ræða námsleiðir eins og Grunnmenntaskólann, Leikskólabrú, skólaliðabrú, skrifstofuskólann, landnemaskólann, nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum og fleira. „Að auki verðum við með fjölda fjölbreyttra námskeiða á öðrum sviðum tölvunámskeið af ýmsu tagi, tungumálanámskeið eins og t.d.  norsku, ítölsku, ensku, dönsku, þýsku, og svo sjálfsstyrkingu, líkamsbeitingu, hópsálfræði, prjónanámskeið, tíma- og verkefnastjórnun, og víngerðarnámskeið  svo eitthvað sé nefnt." 

Símey er í samstarfi við Fjölmennt, fullorðinsfræðslu fatlaðra og býður upp á fjölda námskeiða í flokkum eins og heimilisfræði, íþróttir og sund, leiklist, mynd- og handlist, tónlist, tölvu- og upplýsingatækni, sjálfsstyrking og mál samfélag.

Í vetur verður boðið upp á raunfærnimat annars vegar í iðngreinum og hins vegar fyrir bankamenn.  Raunfærni er færni sem einstaklingur getur hafa öðlast með ýmsum hætti, s.s. með starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fleira. „Margir einstaklingar á vinnumarkaðnum hafa í gegnum áralanga reynslu byggt upp umtalsverða færni í ákveðinni iðngrein, en ekki lokið námi af einhverjum ástæðum. Þessir einstaklingar búa yfir raunfærni sem vert er að skoða og meta og það er m.a. hægt að gera hjá okkur," segir Erla Björg.

Náms- og starfsráðgjöf hefur verið ört stækkandi þáttur í starfsemi Símey.  „Náms- og starfsráðgjöf er góð hvatning sem getur haft úrslitaáhrif þegar tekist er á við ný verkefni.  Hvatning til virkrar símenntunar, sem og aðstoð við þá sem vilja auka menntun sína og færni.  Fólk getur pantað og komið í viðtal sér að kostnaðarlausu, fengið ráðgjöf og eða þreytt áhugasviðspróf, sem er gagnleg leið til að finna út hvaða leiðir henta hverjum og einum," segir Erla.

Þá nefnir Erla að hjá Símey starfi þrír svonefndir Markviss ráðgjafar, en Markviss stendur fyrir markviss uppbygging starfsmanna og er aðferðafræði sem fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar á landsbyggðinni hafa sérhæft sig í. „Markviss er verkfæri til að vinna kerfisbundið að starfsmannaþróun í fyrirtækjum og stofnunum. Með Markviss er tekist á við verkefni fyrirtækja sem fela í sér skipulagningu menntunar og þjálfunar. Hlutverk Markviss ráðgjafanna er að leiðbeina fyrirtækjum t.d. við markmiðasetningu, upplýsingasöfnun, greiningu og lausn vandamála sem upp geta komið í ferlinu. Fjölmargir fyrirtækjaskólar hafa sprottið upp úr Markviss-verkefnum," segir Erla Björg.

Nýjast