Megin tilgangur og markmið ráðstefnunnar var að ræða, skoða og skilgreina ímynd Norðurlands, kalla eftir nýjum hugmyndum og áherslum í markaðssetningu svæðisins með þátttöku ráðstefnugesta. Það var Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi sem stóð fyrir ráðstefnunni. Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri segir að Markaðsstofan sé að vinna með ferðaþjónustuaðilum og sveitarfélögum á Norðurlandi, frá Hrútafirði í vestri og austur að Bakkafirði. Hann sagði að erlendir aðilar hefðu verið fengnir til að koma á ráðstefnuna og til að taka svæðið út. "Við fengum í bónus tveggja tíma útvarpsþátt á BBC, sem var sendur út frá RÚV. Simon Calder, sem var okkar aðalfyrirlesari á ráðstefnunni, sendi út sinn þátt héðan en á þáttinn hlusta um milljón manns."
Bæta aðgengið
Ásbjörn sagði að markmiðið með ráðstefnunni væri að fá fólk til að ræða saman um hvert við viljum stefna með svæðið okkar. "Við horfum til þess að eiga upp í erminni þá sýn sem við viljum kynna fyrir erlendum ferðamönnum. Allt miðar þetta að því að bæta aðgengi að svæðinu, m.a. með því að koma á beinu flugi til Akureyrar. Markaðurinn erlendis er alltaf að kalla eftir einhverju nýju. Við viljum að Akureyrarflugvöllur og Norðurland verði nýr áfangastaður utan hánnar í íslenskri ferðaþjónustu, sem muni stækka kökuna til mikilla muna. Við sjáum þetta fyrir okkur varðandi atvinnusköpum og ekki síður í betri nýtingu á okkar innviðum. Um leið og erlendir ferðamenn fara að koma hingað í þúsundatali, utan háannar, fara að skapast aukin tækifæri fyrir rekstaraðila í ferðaþjónustu. Það mun jafnframt hafa jákvæð áhrif á samfélagið allt og búsetuskilyrðin hér á svæðinu munu batna til mikilla muna. Þá getum við líka farið að njóta þess sem er í boði fyrir ferðamanninn og með þeim hætti styrkt rekstur þessara fyrirtækja og skapað fleiri störf á svæðinu."
Markaðurinn stór
Íslendingar hafa verið duglegir að sækja Norðurland heim að vetrarlagi og það tengist fyrst og fremst snjónum og skíðasvæðunum. Ásbjörn segir að unnið sé að því að fá ferðaskrifstofur bæði sunnan og norðan heiða til að selja erlendum ferðamönnum ferðir út á landsbyggðina. "Við teljum að þarna úti sé stór markaður og fjöldi erlendra ferðamanna sem myndi vilja koma beint inn á Norðurland og nýta sér snjóinn, kuldann, myrkrið, kyrrðina og friðinn. Styrkur Norðurlands er hversu fjölbreytileikinn er mikill." segir Ásbjörn.
Hann sagði það samdóma álit allra þeirra erlendu sérfræðinga sem hingað komu í tengslum við ráðstefnuna, að gríðarleg tækifæri séu á svæðinu til að byggja upp vetrarferðamennsku. "Þar eigum við eitt umfram okkar samkeppnislönd en það er heita vatnið. Þá telja menn mikla möguleika tengjast norðurljósunum." Eftir fyrirlestrana var sett í gang hópastarf, þar sem farið var yfir stöðuna í dag og þá möguleika sem menn sjá í framtíðinni. Áfram verður unnið með það sem þar kom fram en Ásbjörn sagði stefnt að því að kynna niðurstöðurnar á stofnfundi ferðamálaklasa um miðjan þennan mánuð. Höfuðmarkmiðið með stofnun hans er að efla millilandaflugið.