Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir að það sé með miklum ólíkindum hvernig umræðan um Vaðlaheiðargöng hefur þróast. Það er óumdeilt að fjármálaráðherra hefur allar heimildir til að hefja framkvæmdir við verkið. Fjáraukalög fyrir árið 2011 og fjárlögin fyrir árið 2012 veittu fjármálaráðherra allar nauðsynlegar heimildir til að hefjast handa. Kristján segir að Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, hafi ákveðið í samráði við meirihlutann að láta gera skýrslu um verkefnið, sem kynnt yrði fjárlaganefnd áður en tekin yrði endanleg ákvörðun.
Skýrslan, hvernig svo sem niðurstöður hennar væru, þyrfti samt ekkert að takamarka heimildirnar sem Alþingi veitti fjármálaráðherra til hefja verkið, það er óumdeilt. Þegar maður svo fer að horfa á þetta og hvernig umræðan hefur þróast, þá staðfestir skýrsla IFS greiningar allar megin forsendur Vaðlaheiðarganga hf. og að þær séu innan eðlilegra marka. Þegar farið er yfir þetta, er ljóst að veggjöldin munu, að því gefnu að Vaðlaheiðin falli ekki saman, að lágmarki endurgreiða höfuðstólinn af þeim lánum sem félagið tekur. Menn eru farnir að festa sig í sambærilegri vitleysu og var ástunduð þegar rætt var um Hvalfjarðargöng. Þetta eru tvö ólík verkefni og menn mega ekki gleyma því að ríkið lagði til í upphafi með Hvalfjarðargöngum fjármuni sem dugðu til að leggja vegi og vegskála að og frá göngunum. Ætli megi ekki meta þá framkvæmd á tvo milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Ekki er um neitt slíkt að ræða varðandi Vaðlaheiðargöng.
Kristján minnir jafnframt á að Vaðlaheiðargöng eru á 20 ára samgönguáætlun og að þau verði byggð. Það má líka alveg ræða þjóðhagslegan ábata af þessu verki, fyrir ríkissjóð, sveitarfélög, fyrirtæki og fleiri. Einng má nefna sparnað fyrir íbúa, styttingu vegalengda, lækkun á vöruverði, auknum möguleikum atvinnulífs til uppbyggingar, nýjum sóknarfærum, aukinni atvinnu, hækkun á fasteignaverði og svo framvegis.
Kristján segir ruglið í þessari umræðu stafi að hluta til vegna þess hvernig á málinu hefur verið haldið. Ég geri t.d. athugasemdir við það að Kristján Möller þingmaður sitji í stjórn Vaðlaheiðarganga og er á sama tíma í forsvari fyrir málið á þingi líka. Það skapar ákveðna tortryggni. Þetta er heldur ekki eins eða tveggja manna verk að koma þessu máli áfram. Það hefur mikill fjöldi einstaklinga, sveitarfélaga og fyrirtæka unnið að framgangi þess allt frá árinu 1998. Samstaðan heima fyrir hefur verið mikil og er forsenda þess að málið nái fram að ganga, sagði Kristján Þór.
Þolir dagsljósið
Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins segir að þetta mál sé komið í skelfilegan farveg, sem nauðsynlegt sé að koma málinu úr, það séu átök innan ríkisstjórnarinnar og þá sé búið að stilla þessu upp sem kjördæmapoti. Höskuldur segir að það sé mjög erfitt að fá menn til að líta efnislega á málið. Þessi kjördæmapotsstimpill er til kominn fyrst og fremst vegna þess að Kristján Möller fyrrverandi samgönguráðherra er í stjórn Vaðlaheiðarganga. Þar með er hann vanhæfur til þessa greiða atkvæði um málið á Alþingi og hann þarf að velta því sér fyrir hvort hann er ekki vanhæfur til að taka til máls um þetta mál yfirhöfuð.
Höskuldur segir að skýrsla IFS greiningar sé mjög greinargóð, þar sem allar forsendur Vegagerðarinnar og fjármálaráðuneytisins séu í rauninni staðfestar. Ég legg áherslu á að menn viðurkenni að það sé áhætta fólgin í fjármögnum verkefnisins en að að sú áhætta sé mjög lítil. Í forsendum IFS er sagt að það þurfi annað hvort að auka eigið fé eða styrkja með ríkisábyrgð eða eins og ég tel að gæti verið skynsamlegt, að endurmeta fjárhagsáætlunina, m.a. með því að borga framkæmdina á lengri tíma. IFS metur aðeins fjárhagslegu áhættuna en ekki þjóðhagslega arðsemi verkefnisins. Ekki hvort það skili sér eitthvað til baka í ríkiskassann í tenglsum við framkvæmdina og það er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum á Bakka, aukinni umferð í ljósi þeirra umsvifa sem eiga að fara þar af stað og styrkingu atvinnusvæðisins.
Höskuldur spurði innanríkisráðherra á Alþingi hvort ekki væri rétt að taka þessar þjóðhagslegu forsendur inn í dæmið, þegar verið að taka ákvörðun um málið. Mér skildist á honum að hann vildi ekki taka þær með. Ég gagnrýndi það og sagð að það yrði að vera hluti af ákvörðun Alþingis.
Höskuldur segir mikilvægt að allar upplýsingar séu uppi á borðum, rangar fullyrðingar og leynd skaði það. Verkefnið þolir dagsljósið, það stendur undir sér, allur höfuðstóllinn af láninu verður greiddur til baka, þetta er aðeins spurning um hvort vextirnir skili sér 100%.