Ólafur Jónsson skrifar
Fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar fyrir 2012 var afgreidd í bæjarstjórn á dögunum. Þar gætir mikillar bjartsýni hjá hjá L-listanum um tekjur bæjarsjóðs á næsta ári. Bjartsýni er okkur öllum nauðsynleg, ekki síst á þrengingartímum , en við verðum engu að síður að vera raunsæ í mati á öllum forsendum áætlunarinnar. Því bera að halda til haga að tekjuáætlun 2011 gekk eftir og í raun gott betur en það. Það er ánægjulegt og segir margt um öflugt atvinnulíf í bænum. Þar vega þungt tekjur sjómanna sem minnir okkur enn og aftur á mikilvægi öflugs sjávarútvegs fyrir bæjarfélagið.
Hins vegar eru blikur á lofti um ýmsar forsendur sem lagt var upp með í þessari áætlun. Því miður er óljóst um ýmsar framkvæmdir og sumar þeirra munu ekki fara af stað á næsta ári. Síðan hefur verðbólguþróun verið óhagstæð síðustu mánuðina og töluvert yfir 4% markinu sem lagt var til grundvallar. Á þetta benti ég í umræðunni í bæjastjórn, en líklegast er enginn einn þáttur jafn ráðandi um afkomuna og einmitt verðbólguþróunin. Annað mikilvægt atriði er gjaldskráin og því miður var hún ekki nægjanlega vel unnin að mínu mati. Í þeim efnum fannst mér vega þyngst að hækkunin kemur misjafnlega niður á einstaka gjaldstofna og sumir voru ekkert hækkaðir. Eðlilegt er að leiðrétta gjaldskrá í samræmi við verðlagsþróun og ég hef líka talið að skoða megi kostnaðarhlutdeild foreldra varðandi gjöld í leik- og grunnskólanum. En að þessu sinni var þar oflangt gengið og því greiddi ég atkvæði gegn samþykkt gjaldskrárinnar.
Sá þáttur fjárhagsáætlunarinnar sem síðan hefur hvað minnsta umræðu fengið í bæjarfélaginu er framkvæmdaáætlun næsta árs. Þar hef ég haft ákveðnar skoðanir sem snúa að því að framkvæmdum sé jafnað milli A og B-hluta reikninga bæjarfélagsins. Ég hef verið talsmaður þess að færa framkvæmdir yfir í B-hlutann og þar nefnt sérstaklega fráveituna og virkjun í efri hluta Glerár. Hef ég flutt tillögur um þetta í bæjarstjórn í fyrra og eins við samþykkt þriggja ára framkvæmdaáætlunar í mars s.l. og eins núna við samþykkt fjárhagsáætlunar næsta árs. Því miður hafa þær ekki fengið hljómgrunn í bæjarstjórn.
Tillaga mín gékk út á það að fresta nýframkvæmdum í gatnagerð og draga 75 milljónir króna af stofnsjóði fyrir aðalsjóð og setja því alls um 300 milljónir í fráveituframkvæmdir á næsta ári. Þetta dugir til að mæta kostnaði við gerð frárásarpípu frá Krossanesi að Sandgerðisbót sem síðan myndi tengist 500 m útrásarpípu þaðan og út á nægjanlegt dýpi. Fráveitan er brýnasta verkefnið. Með þessu væri stigið stórt skref í fráveitumálum bæjarins og hreinsivirki gæti beðið í einhver ár áfram, þó svo að það þurfi einnig að koma til seinna.
Mér hefur verið legið á hálsi í þessari umræðu að með þessu sé ég að koma í veg fyrir framkvæmdir við Dalsbraut. Verður svo að vera. Í mínum huga er fráveitan algjört forgangsverkefni. Á það hefur líka verið bent að fyrri meirihluti hafi frestað fráveitunni ítrekað og er það rétt, en réttlætir ekki að við ýtum þessu brýna verkefni á undan okkur áfram og förum í önnur verkefni sem eru ekki jafn nauðsynleg.
Höfundur er bæjarfulltrúi D-lista.