Fjárframlögin áhyggjuefni

Þriðja árið í röð hækkuðu fjárframlög til reksturs Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) sem gerði það að verkum að hægt var að auka þjónustu, stytta biðlista þar sem þörfin var brýn og bæta mönnun á nokkrum deildum. Starfsemistölur það sem af er árinu 2017 benda til þess að ekkert lát sé á aukningunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SAk eftir ársfund sjúkrahússins sem fram fór í gær. Aukning varð í allri starfsemi á árinu, má nefna að komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um 16% og komum á bráðamóttöku um 5,3% miðað við fyrra ár. Enn var aukning í sjúkraflugi eða 12%.

Bjarni Jónasson, forstjóri sjúkrahússins, sagði í ræðu sinni á ársfundinum að um 3-4% raunaukningu fjárframlaga til almenns rekstrar þyrfti til að mæta þörf fyrir aukna þjónustu og nauðsynlega uppbyggingu þjónustunnar. „Þegar rýnt er í Tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022 og þær fjárhæðir sem ætlaðar eru í sjúkrahúsþjónustu, þar sem bæði er innifalin aukning til rekstrar og stofnkostnaðar, er vandséð hvernig komið verður til móts við brýna þörf fyrir aukna þjónustu og þróun starfseminnar. Það er því ekki að ástæðulausu að við hér á sjúkrahúsinu höfum áhyggjur af fjárframlögum til starfseminnar á næstu árum svo unnt sé að mæta þörfum íbúanna með þeim hætti sem við teljum þurfa,“ sagði Bjarni. Hann sagði ánægjulegt að stækkun Sjúkrahússins á Akureyri væri komin á dagská og sagðist vonast til þess að hægt yrði að hefja byggingu legudeildar fyrr en árin 2021-2022 eins og nú er gert ráð fyrir.

Fjárveitingar ríkissjóðs til rekstrar á árinu námu 6.372 milljónum króna. Því til viðbótar fékk SAk 50 milljóna króna tímabundið framlag til almenns rekstrar og 21,3 milljónir vegna uppfærslu og breytinga á lyfjafyrirmælakerfi. Hluti greiðslna vegna þátttöku sjúkrahússins í biðlistaátaki velferðarráðuneytisins kom sem fjárveiting, 81 milljón króna, og félagsmálaráðherra styrkti verkefni um meðferð fyrir þolendur ofbeldis um 10 milljónir. Í árslok fékk sjúkrahúsið 50 milljóna króna aukafjárveitingu. Fjárveiting til tækjakaupa lækkaði um 27 milljónir frá fyrra ári.

Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu var þakbygging yfir tengigang C-álmu til að útrýma leka. Aðrar stórar framkvæmdir voru breytingar og endurbætur á blóðtökurými rannsóknadeildar, skurðlækningadeild og geðdeild. Framkvæmt var fyrir 215 milljónir króna. Til tækjakaupa var varið 153,2 milljónum króna. Að auki voru keypt tæki og búnaður fyrir um 28 milljónir króna fyrir tilstilli Gjafasjóðs og Hollvinasamtaka sjúkrahússins.

Nýjast