Fiskidagurinn mikli er einstök hátíð á heimsvísu

Gríðarlegur mannfjöldi hefur verið á Dalvík síðustu daga og í dag, á sjálfan Fiskidaginn mikla, er talið að gestir hafi verið um og yfir 30 þúsund talsins. Þetta er í níunda sinn sem hátíðin er haldin og hefur aðsókn aldrei verið eins góð og í dag. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja var ræðumaður dagsins en Samherji er einn helsti styrktaraðili hátíðarinnar. Þorsteinn Már sagði að Fiskidagurinn mikli væri einstök hátíð á heimsvísu.  

"Þessi dagur - og í raun helgin öll - á sér enga hliðstæðu í heiminum.  Íbúar bæjarins opna heimili sín fyrir öllum sem þangað vilja koma,  á Fiskisúpukvöldinu mikla þar sem gestir og gangandi þiggja frábæra súpu að hætti hússins. Dalvíkingar bæta svo um betur daginn eftir - ef það er á annað borð hægt - og bjóða þjóðinni í fiskréttaveislu og fjölskyldugleði um allan bæ frá morgni og langt fram á kvöld. Þetta er einstök gestrisni og einstakt framtak. Fiskidagurinn mikli er jafnframt yfirlýsing Dalvíkinga um að þeir eru stoltir af því að starfa í fiskvinnslu og greinum henni tengdum. Þeir hafa alltaf verið það og ætla að vera það áfram. Dalvíkingar hafa alla tíð staðið saman og staðið af sér umræðu hversdagsins og leggja sig fram um að horfa til framtíðar," sagði Þorsteinn Már.

Hann sagði að á Dalvík byggi margt duglegt fólk - fólk sem kynni sitt fag. "Hér á Dalvík eru framleidd fyrsta flokks matvæli fyrir einn kröfuharðasta markað í heimi.  Dalvíkingar hafa sýnt að þeir hafa alla burði til að standa sig vel í þeirri hörðu samkeppni um ókomin ár.  Hér við hliðina á okkur er rekið eitt fullkomnasta frystihús í heimi og á svæðinu eru margar smærri sérhæfðar vinnslur.  Þá liggja hér í höfn tvö af fengsælustu fiskiskipum landsins.  Dalvískir sjómenn og fiskvinnslufólk er á heimsmælikvarða! Dalvíkingar sýna landsmönnum öllum það í verki að á Íslandi er hægt að skapa umgjörð og móta framúrskarandi fjölskylduvænt byggðarlag, sem byggir lífsafkomu sína á nýtingu þeirra auðlinda sem landið okkar býr yfir. 

Við hjá Samherja hófum starfsemi á Dalvík fyrir 18 árum síðan og höfum byggt hér upp öflugt fyrirtæki í góðu samstarfi við heimamenn. Við höfum á þessum tíma kappkostað umfram allt annað að byggja upp og eiga sjávarútvegsfyrirtæki, í fremstu röð í veröldinni.  Og við höfum alla tíð einbeitt okkur að rekstri þeirra eftir bestu getu fremur en að dreifa kröftum okkar í önnur óskyld viðfangsefni. Ég er stoltur af því að vera í forsvari fyrir fyrirtæki sem hefur notið þekkingar og færni fólksins og kosta samfélagsins sem áður er lýst.  Starfsemi Samherja á Dalvík hefur reynst fyrirtækinu einstaklega farsæl. Útgerð og fiskvinnsla á Dalvík er atvinnugrein sem hefur búið við mikinn stöðugleika á undanförnum árum, þrátt fyrir mikið umrót í þjóðfélaginu.  Það er ómetanlegt bæði fyrir okkur sem atvinnurekendur og fólkið sem starfsmenn.  Í mínum huga er forsendan fyrir þessum stöðugleika tvíþætt. Annars vegar er það sú umgjörð sem áður er lýst. Hinsvegar og ekki síðri ástæða er sú staðreynd að fiskvinnsla Samherja  á Dalvík byggist á því að veiðar, vinnsla og markaðssetning er undir einni og sömu stjórn.  Starfsmenn Samherja sækja fiskinn í sjó, vinna aflann og selja - og þetta kunnum við allra manna best."

Þorsteinn Már sagði að það væru erfiðir tímar á Íslandi í dag og mikið gengi á. "Það er von mín að það sem okkur hefur tekist að byggja upp hér á Dalvík, með stöðugleika í hráefnisöflun í áratug, verði ekki öllu kastað burt með illa ígrunduðum breytingum á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins í landinu.  Það er allt of mikið í húfi til þess að við getum leyft okkur slíkt verklag. Sjávarútvegur og fiskvinnsla munu eiga stóran þátt í að skapa okkur gjaldeyri í framtíðinni og vinna þannig þjóðina út úr þeim ólgusjó sem hún siglir í um þessar mundir. Mikilvægasta verkefni Íslendinga næstu mánuði er fyrst og fremst að vinna áfram saman af krafti, dugnaði og þrautseigju. 

Þorsteinn Már sagði þá Samherjamenn vera stolta af því að vera einn af bakhjörlum og að taka þátt í Fiskideginum mikla.  "Ég get sagt það hér að svo lengi sem Dalvíkingar vilja leggja það á sig að taka á móti öllum þessum frábæru gestum heila helgi ár hvert, þá er það okkur hjá Samherja sönn ánægja, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að þessi einstaka hátíð lifi um ókomin ár. Það má öllum ljóst vera að Fiskidagshelgin hvílir fyrst og fremst á herðum heimamanna og undirstrikar þann mikla drifkraft og áræðni sem í þeim býr." 

Nýjast