Finnur ehf. bauð lægst í framkvæmdir á Eyrarlandsvegi

Finnur ehf. bauð lægst í hellulögn gangstétta við Eyrarlandsveg á Akureyri en tilboð voru opnuð í dag. Fyrirtækið bauðst til að vinna verkið fyrir rúmar 10,7 milljónir króna, eða sem nemur um 74% af kostnaðaráætlun. Alls bárust fimm tilboð í verkið og voru fjögur þeirra undir kostnaðaráætlun hönnuða, sem var 14,6 milljónir króna.
 

Túnþökusala Kristins ehf. átti næst lægsta tilboð, rúmar 12 milljónir króna eða 82,7% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboð átti Garðverk ehf., tæpar 16 milljónir króna, eða rúmlega 109% af kostnaðaráætlun. Framkvæmdirnar í Eyrarlandsvegi voru boðnar út fyrr í sumar en þá barst aðeins tilboð frá Túnþökusölu Kristins og hljóðaði upp á 13,3 milljónir króna. Tilboðið var þá yfir kostnaðaráætlun hönnuða, samkvæmt bókun á fundi framkvæmdaráðs nýlega og þar var ákveðið að hafna tilboðinu og bjóða verkið út að nýju. Eitthvað hefur breyst á milli útboða, því kostnaðaráætlunin nú er hærri en fyrra tilboðið frá Túnþökusölu Kristins.

Nýjast