Fimm fíkniefnamál komið upp á Akureyri síðustu daga

Síðustu 10 daga hafa komið upp 5 fíkniefnamál hjá lögreglunni á Akureyri. Við fíkniefnaeftirlit hafa verið höfð afskipti af þó nokkrum aðilum, nokkrir handteknir og framkvæmdar voru nokkrar húsleitir. Tveir af þeim sem lögregla handtók telur hún að hafi stundað fíkniefnasölu og að efni sem haldlögð voru hjá þeim hafi verið ætluð til sölu. Um var að ræða kannabisefni og amfetamín.  

Síðastliðna þrjá mánuði hefur lögreglan handtekið 16 manns sem hún telur hafa stundað fíkniefnasölu á Akureyri og haldlagt hjá þeim fíkniefni.  Þrír af þeim hefur lögregla handtekið oftar en einu sinni með fíkniefni. Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005 þar sem koma má á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Um er að ræða símsvara þar sem fólk getur komið upplýsingum á framfæri nafnlaust. Starfsmenn fíkniefnastofu ríkislögreglustjóra taka niður upplýsingar sem berast og koma þeim áleiðis til lögregluembættanna.

Nýjast