FH sigraði Akureyri með eins marks mun, 26-25, eftir framlengingu er liðin áttust við í Kaplakrika í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik. Staðan í hálfleik var 12-12 og 22-22 að loknum venjulegs leiktíma. Ragnar Jóhannsson tryggði FH sigurinn með marki þegar rúm mínúta var eftir af síðari hálfleik framlengingarinnar og síðasta sókn Akureyrar rann út í sandinn. FH hefur því tekið 1-0 forystu í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit. Liðin mætast að nýju í Höllinni á Akureyri á föstudaginn kemur.
FH byrjaði betur í leiknum í kvöld en eftir að staðan var 2-2 í byrjun leiks skildu leiðir fljótlega og FH komst þremur mörkum yfir, 6-3, eftir tíu mínútna leik. Ekkert gekk í sóknarleik Akureyrar sem var brösulegur í meira lagi. FH-ingar gengu á lagið og juku muninn jafnt og þétt með Daníel Frey Andrésson í ágætum gír í markinu. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 10-5 fyrir heimamenn en Akureyringar lentu í brottrekstravandræðum og misstu tvo menn af velli með skömmu millibili. Norðanmenn létu þó ekki árar í bát og með góðum kafla tókst þeim að jafna metin í 11-11 skömmu fyrir hlé eftir að hafa skorað fimm mörkum í röð. Staðan 12-12 í leikhléi.
Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik en FH komst þremur mörkum yfir tólf mínútum fyrir leikslok, 19-16. Það var ekki síst fyrir góða frammistöðu Daníels Freys í marki FH-inga en hann var norðanmönnum erfiður í leiknum. Akureyri minnkaði muninn í eitt mark, 21-20, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og spennan rafmögnuð í Kaplakrika. Þegar hálf mínúta var til leiksloka fengu Akureyringar dæmt vítakast í stöðunni 22-21 fyrir FH. Bjarni Fritzson fór á vítapunktinn og jafnaði metin af öryggi. FH fékk boltann og tók leikhlé þegar tíu sekúndur voru eftir en sóknin rann út í sandinn og því framlengt.
FH byrjaði framlenginguna betur og komst tveimur mörkum yfir en hafði eins marks forystu, 25-24, að loknum fyrri hálfleik. Seinni hálfleikurinn var í járnum allan tímann og taugastríðið algjört. Ragnar Jóhannsson kom FH yfir, 26-25, þegar rúmlega mínúta var eftir og það reyndist sigurmark leiksins þar sem Akureyrar fengu dæmda á sig leiktöf í síðustu sókn leiksins og leikurinn fjaraði út.
Lokatölur, 26-25, FH í vil.