FH varð í kvöld Íslandsmeistari í 2. flokki karla í handbolta eftir að hafa sigrað Akureyri Handboltafélag í Höllinni 34-30. Heimamenn voru sterkari aðilinn lengst af leik en í lokin, þegar ljóst var orðið að þeir myndu ekki ná að sigra með sex marka mun eins og þeir þurftu til að verða meistarar, datt botninn algjörlega úr leik liðsins.
Eftir jafnan fyrri hálfleik var staðan 15-14 fyrir FH í hálfleik en góð byrjun Akureyrar í seinni hálfleik, þar sem þeir náðu fljótlega tveggja marka forystu, gaf þeim góða von um að ná markmiði sínu. Þeir fóru hins vegar mjög illa að ráði sínu og klúðruðu hverju tækifærinu á fætur öðru til að auka muninn. Munurinn hélt því áfram að vera 1-2 mörk heimamönnum í vil allt þar til þeir misstu dampinn þegar um fjórar mínútur var eftir og ljóst var að tíminn var orðinn of naumur.
Akureyringar geta heldur betur nagað sig í handabökin því þeir höfðu sannarlega fínan möguleika á að stríða FH í þessum leik. Liðið klúðraði hins vegar alltof mörgum dauðafærum og þar fyrir utan fóru fjögur vítaköst forgörðum. Jákvæðu þættirnir í leik Akureyrar voru hins vegar góð markvarsla Elmars Kristjánssonar og stórleikur Jóns Þórs Sigurðssonar í sókn sem vörn.
Geir Kristinn Aðalsteinsson, þjálfari Akureyrar var eðlilega svekktur í leikslok enda í annað skipti sem lið hans tapar úrslitaleik á tímabilinu. ,,Já þetta er mjög svekkjandi, ekki síst vegna þess að við vorum sjálfum okkur verstir. Það var sorglegt að ná aldrei þriggja marka forskoti því þá hefði eflaust komið skjálfti í FH-ingana. Ég var stoltur af mínum strákum í 55 mínútur en er mjög ósáttur við hugarfarið undir lok leiks því ég hefði allavega viljað vinna leikinn."
Einn Akureyringur varð þó Íslandsmeistar í kvöld, sá heitir Ásbjörn Friðriksson sem nú leikur með FH en þangað kom hann frá AHF fyrir tímabilið sem var að enda. Hann var að vonum sáttari með niðurstöðuna en hans fyrrum félagar í Akureyri. ,,Já þetta var mjög sætt en um leið eru þetta svolítið blendnar tilfinningar. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja en jú ég er að sjálfsögðu mjög ánægður," sagði Ásbjörn.