FH í lykilstöðu eftir sigur í Kaplakrika

FH vann Akureyri, 22-17, er liðin mættust í Kaplakrika í þriðja leik liðanna í undanúrslitum N1-deild karla í handknattleik. FH hafði eins marks forystu í hálfleik, 10-9. FH er komið  2-1 yfir í einvígi liðanna en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit. Liðin mætast í fjórða sinn á Akureyri á miðvikudaginn kemur og þá getur FH komist í úrslit með sigri, en vinni Akureyri tryggir liðið sér oddaleik í Kaplakrika.

Akureyringar fóru oft á tíðum illa að ráði sínu í leiknum og náðu ekki að nýta sér brottrekstravandræði FH-inga. Ólafur Gústafsson, skytta í liði FH, var sendur í sturtu um miðjan síðari hálfleik þegar hann fékk sína þriðju brottvísun en FH lét það ekki á sig fá og aðrir leikmenn stigu einfaldlega upp í staðinn. Þá munaði um minna fyrir lið Akureyrar að margir lykilmenn í sóknarleik liðsins náðu sér engan veginn á strik.

Geir Guðmundsson, Hörður Fannar Sigþórsson og Geir Guðmundsson voru markahæstir í liði Akureyrar í dag með fjögur mörk hver en hjá FH skoruðu þeir Ari Magnús Þorgeirsson og Hjalti Pálmason fimm mörk hvor. Daníel Freyr Andrésson varði fimmtán skot í mark FH en Sveinbjörn Pétursson varði tuttugu skot í marki Akureyrar.

Nýjast