Fann jarðgöng frá stríðsárunum undir Akureyri

Hörður Geirsson safnvörður á Minjasafninu á Akureyri komst á dögunum yfir gögn frá hermálaráðuneyti Bretlands sem sýna að breska setuliðið vann við jarðgangnagerð undir Akureyri á stríðsárunum. Hörður hefur fundið göngin og þau eru ótrúleg, alls 7 km löng. Innganga þeirra er reyndar Akureyringum kunn, jarðhýsi gengt Réttarhvammi, sem flestir þekkja en með smá greftri inn af jarðhýsinu opnuðust göngin.  

Í miðjum göngunum ert stórt rými þar sem Bretar hafa útbúið stjórnstöð, virðast þeir hafa ætlað að stjórna vörnum Akureyrar þaðan ef til innrásar kæmi. Fullkomin fjarskiptatæki (þess tíma) eru í rýminu ásamt niðursuðumat og súkkulaði, einnig er þarna að finna gott vopnasafn. Þarna eru fullkomin kort af Íslandi og inná þeim eru merktir tveir flugvellir sem ekki var vitað um fram til þessa dags. Annar völlurinn er staðsettur upp af Bleiksmýrárdal, hinn er á Suðurlandi.

Hörður mun í dag í samstarfi við Minjasafnið og Akureyrarstofu bjóða fólki í söguskoðun og hefst gangan kl 17.00.  Rétt er að taka fram að nokkur bleyta er í göngunum og fólki því ráðlagt að vera vel búið til fótanna og hafa meðferðis vasaljós. Ragnar Hólm kynningarfulltrúi Akureyrarbæjar vill líkja þessum fundi við gullæð. "Þetta er alveg ótrúlegur fundur, sannkölluð gullæð," sagði Ragnar. "Það er ljóst að við munum með þessum fundi Harðar enn frekar geta aukið á aðdráttarafl bæjarins," sagði Ragnar. Ástæða er til þess að hvetja alla sem áhuga hafa á að kynna sér undrasmíð Bretanna, að mæta í skoðunarferð með Herði í dag kl 17.00.

Nýjast