Nú seinnipartinn þegar sól fór að lækka á lofti mynduðust glæsileg glitský á himni. Víða mátti sjá fólk með myndavélar og síma á lofti við að taka myndir af þessu óvenjulega náttúrufyrirbæri. Á vef Veðurstofu Íslands má finna þennan fróðleik um glitský:
Glitský eru ákaflega fögur ský sem myndast í heiðhvolfinu, gjarnan í um 15 - 30 km hæð. Glitský sjást helst um miðjan vetur, um sólarlag eða sólaruppkomu. Litadýrð þeirra er mjög greinileg því þau eru böðuð sólskini, þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð.
Litadýrðin þykir minna á þá liti sem sjá má í hvítu lagi sem er innan á sumum skeljum (s.n. ,,perlu-móður''-lag í perluskeljum) og eru þau í ýmsum tungumálum því nefnd perlumóðurský.
Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu (um eða undir -70 til -90 °C), og eru úr ískristöllum, eða úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum (t.d. HNO3.3H2O). Kristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess. Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins. Litaröðin frá jaðri inn til miðju skýsins er stundum eins og vísuorðin: gulur, rauður, grænn og blár en oft er skýið einnig hvítt í miðju. Litirnir eru líka háðir stærðardreifingu agna í skýjunum, þannig að oft má sjá rauða, gula og græna flekki í bland.