Þegar ritstjóri Skarps á Húsavík leit út um skrifstofugluggann skömmu fyrir hádegi, blasti við honum fálki sem hafði tyllt sér efst á snjóruðning við Garðarsbrautina, gegnt matvöruversluninni Úrval og var augljóslega með hugann við kjötborðið þar innan dyra. Fuglinn var hinn sperrtasti, virtist hvurgi smeykur og haggaðist ekki þó olíubílar og önnur ökutæki brunuðu framhjá honum í þriggja metra fjarlægð. Ljósmyndari fór strax á stúfana og það var ekki fyrr en hann var kominn nánast upp að fálkanum að hann hóf sig til flugs og yfirgaf svæðið.
Þetta er ekki fyrsti fálkinn sem myndaður eru á Húsavík síðustu daga og a.m.k. tveir aðrir ljósmyndarar hafa náð að mynda fálka í bænum. Og kannski er þetta allt sami fálkinn, hver veit? JS