Fagnar því að tekin skuli til starfa velferðarstjórn VG og Samfylkingar

Sveitarstjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fagnar því að tekin skuli til  starfa velferðarstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs  og Samfylkingarinnar sem leggur áherslu á að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og þjóðarsamstöðu. Mikilvægt er að sveitarfélög og ríkisstjórn vinni saman að endurskipulaggningu rekstrar og þjónustu sveitarfélaga.  

Sveitarfélögin og stofnanir þeirra, líkt og rekstur ríkisvaldsins, eru löskuð eftir hrun efnahagsstefnunnar,  þar sem eignir hafa rýrnað og tekjustofnar dregist saman. Sveitarfélögin hafa hinsvegar takmarkaða getu til að glíma við afleiðingar efnahagshrunsins og þurfa því aðstoð  ríkisvaldsins ef forða á alvarlegum samdrætti í grunnþjónustu.

Í aðgerðum til að draga úr atvinnuleysi er eðlilegt að líta til verkefna hjá sveitarfélögunum og veita fé til viðhalds og nýsköpunarverkefna á þeirra vegum. Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna þarf að efla og styðja betur við sveitarfélög með einhæfa tekjustofna og eins þau sveitarfélög þar sem hlutfall barna og unglinga er hátt. Nauðsynlegt  er að leggja áherslu á eflingu sveitarfélaga í góðu samstarfi við þau og samtök þeirra. Taka þarf tillit til ólíkra aðstæðna sveitarfélaga um allt land í umræðu um endurskipulagningu verkaskiptingar milli  ríkis og sveitarfélaga.

Endurskoða þarf laga- og starfsumhverfi sveitarfélaga frá grunni, sem og tekjustofna þeirra, enda verða þeir að taka mið af raunkostnaði þeirra verkefna sem liggja hjá sveitarfélögunum. Eins er mikilvægt að tekjustofnarnir séu ákvarðaðir með skýrum hætti en ekki háðir ákvörðun ríkisstjórna á hverjum tíma.

Samhliða endurskoðun á starfsumhverfi sveitarfélaga þarf að setja fram tímaáætlun um hvenær viðfangsefni flytjast á milli stjórnsýslustiga. Sveitarstjórnarráð Vinstri grænna leggur einnig áherslu á að lög um sveitarfélög verði endurskoðuð með það að markmiði að skýra heimildir sveitarfélaga til lántöku og heimildir sveitarfélaga til að eiga í félögum og fyrirtækjum, segir í ályktun sveitarstjórnarrás VG.

Nýjast