Fagnaði áttræðisafmælinu á skíðum í Hlíðarfjalli með fjölskyldu sinni

Valdimar Örnólfsson, sá mikli íþrótta- og heilsufrömuður, er áttræður í dag. Og hvað gera menn af því tilefni, nú skella norður til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni, á skíði í Hlíðarfjalli. Með Valdimari og konu hans Kristínu Jónasdóttur, voru með í för þrír synir þeirra, tvær tengdadætur og sjö barnabörn og að sjálfsögðu voru allir á skíðum. Í tilefni dagsins mættu fulltrúar Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og Skíðasambands Íslands, þau Viðar Sigurjónsson sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ og Þórunn Sif Harðardóttur framkvæmdastjóri SKÍ, upp í Hlíðarfjall fyrr í dag og færðu afmælisbarninu gjafir, fyrir hönd sinna sambanda. Valdimar lék á alls oddi í fjallinu en hann sagðist vera kominn norður til að rifja upp forna frægð en hann varð tvöfaldur Íslandsmeisti á skíðum í Hlíðarfjalli árið 1952, fyrir 60 árum. Hann sigraði þá í bruni og var í sigursveit Reykjavíkur í svigi. Í einstakslingskeppninni í svigi fyrir 60 árum flaug hann út úr brautinni í fyrri ferð, eins og hann orðaði það sjálfur. Valdimar er fæddur og uppalinn á Suðureyri en hann sagðist hafa verið fjögurra eða fimm ára gamall þegar hann fór fyrst á skíði. Þótt Valdimar sé þekktur skíðamaður og íþróttakennari er hann sennilega þekktastur meðal þjóðarinnar fyrir morgunleikfimina sem hann stjórnaði í Ríkisútvarpinu í áratugi. Þá lagði hann sitt af mörkum við kenna fólki á skíði í Kerlingafjöllum um árabil.

 

 

Nýjast