Fagnaðarefni að í landinu er ríkisstjórn undir forsæti jafnaðarmanna

Aðalfundur Samfylkingarinnar á Akureyri, sem haldinn var í Lárusarhúsi í gærkvöld, samþykkti ályktun, þar sem því er fagnað að í landinu er tekin við ríkisstjórn undir forsæti jafnaðarmanna. Jafnframt fagnar fundurinn að úrslit alþingiskosninganna í apríl hafi skilað Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands, í þann sess að vera stærsti flokkur landsins.  

Fundurinn lýsir sérstakri ánægju með að lögð verði fram þingsályktunartillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, og þannig tekið mikilvægt skref í þessu brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar. Mikilvægt er að Samfylkingin skuli leiða landsstjórnina við þær erfiðu aðstæður sem nú eru  í þjóðfélaginu. Fundurinn lýsir jafnframt ánægju með að flokkurinn skuli hafa náð kosningu þriggja þingmanna í kjördæminu. Aðalfundurinn lýsir jafnframt yfir fullum stuðningi við heilbrigðisyfirvöld í viðleitni þeirra við að bæta alhliða heilsufar barna og ungmenna.

Jón Ingi Cæsarsson var endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar á Akureyri og í stjórn voru kjörnir Hallur Heimisson, sem var endurkjörinn og Ingólfur Guðmundsson sem kom inn nýr í stað Guðrúnar Kristjánsdóttir Hrísey, sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs.  Agnes Arnardóttir var síðan kjörinn varamaður í stjórn. Fyrir í stjórninni voru Helena Karlsdóttir, Lára Stefánsdóttir og Unnar Jónsson til vara, kosinn á síðasta ári til tveggja ára. Starf félagsins hefur verið með miklum blóma og félagið afar virkt í stjórnmála- og félagsstarfi á Akureyri og NA-kjördæmi, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast