Akureyrarbær hefur samið við Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp um að fá að nýta þau leikskólapláss sem þar eru laus til að mæta fyrirliggjandi þörf fyrir þá sem geta nýtt sér það og draga þannig úr fjölda barna á biðlista. Þá verður áfram leitað leiða til mæta aukinni þörf fyrir dagforeldra.
Samkvæmt upplýsingum Vikudags verða alls fjögur börn frá Akureyri sem fá leikskólapláss í nágrannasveitarfélögunum. Hrafnhildur Sigurðardóttir, leikskólafulltrúi hjá Akureyrarbæ, segir við fyrirspurn blaðsins að um sé að ræða börn sem fædd eru á árunum 2012-2015 og komu inn á biðlista eftir að innritun lauk hjá í haust.
Tvö þessara barna byrjuðu í leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit núna í desember og hin tvö börnin byrja í leikskólanum Álfaborg á Svalbarðseyri í janúar.
Skortur hefur verið á leikskólaplássum á Akureyri undanfarið eins og Vikudagur hefur fjallað um og margir foreldrar komast ekki með börnin sín á leikskóla fyrr en um tveggja og hálfsárs aldur. Verulegar áhyggjur eru á meðal foreldra um stöðuna og eru dæmi um að fólk hafi flutt úr bænum til að finna börnum sínum pláss á leikskóla.