Niðurstöður skoðunar Einingar-Iðju á máli starfsmanna á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri sýna að þeir fá greitt samkvæmt kjarasamningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stéttarfélaginu. Þar segir að í vinnustaðaeftirliti félagsins á veitingahúsið Sjanghæ þann 30. ágúst 2017 hafi venju samkvæmt verið óskað eftir ráðningarsamningum, launaseðlum, bankastaðfestingum og öðrum gögnum tengdum réttindum starfsfólks.
„Við þessari ósk varð Life Iceland þann 31. ágúst sl. Óskað var eftir viðbótargögnum sem bárust þann 4. september sl. Búið er að yfirfara þau gögn sem bárust félaginu um málefni starfsmanna veitingastaðarins Sjanghæ. Niðurstaða félagsins er að þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum standast almenna kjarasamninga og launataxta sem gilda á veitingahúsum. Að gefnu tilefni vill félagið taka það fram að upplýsingar sem komu fram í umfjöllun fjölmiðla um málið komu ekki frá starfsmönnum félagsins, annað en það sem formaður félagsins sagði aðspurður um stöðu málsins,“ segir á vef Einingar-Iðju.