Eyrarrósin, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður veitt í áttunda sinn á Bessastöðum laugardaginn 18. febrúar nk. klukkan 14.00. Þrjú verkefni hafa verið valin úr metfjölda umsókna og hljóta tilnefningu til Eyrarrósarinnar í ár: Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sjóræningjahúsið á Vatneyri við Patreksfjörð og tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, tilkynnir hvert þeirra hlýtur Eyrarrósina í ár og afhendir verðlaunin: 1,5 milljón krónur, verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Hrefna Haraldsdóttir stjórnandi Listahátíðar kynnir Eyrarrósina, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar samkomuna og Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson syngja.
Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Markmið verðlaunanna er að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Í umsögn valnefndar um verkefnin sem tilnefnd eru segir meðal annars:
Safnasafnið Alþýðulistasafn Íslands stendur við þjóðveg eitt rétt utan við Akureyri, í gamla Þinghúsinu á Svalbarðsströnd. Safnið opnaði árið 1995 og vinnur metnaðarfullt brautryðjendastarf í söfnun og varðveislu á íslenskri alþýðulist. Safnið tengir saman alþýðulist og nútímamyndlist af alúð og kímni og vinnur ávallt í nánu samstarfi við samfélagið í kring.
Sjóræningjahúsið á Vatneyri við Patreksfjörð hefur dregið að sér fjölda innlendra og erlendra ferðamanna frá opnun vorið 2008. Í Sjóræningjahúsinu er öflugt tónleikahald, sýning tileinkuð sjóránum við Íslandsstrendur, veitingastaður og sýningaraðstaða fyrir listamenn auk fjölbreyttra menningarviðburða árið um kring.
Við Djúpið á Ísafirði hefur skipað sér fastan sess í tónlistarlífi landsins og verður haldin í tíunda sinn á sumarsólstöðum. Hátíðin hefur eflt tónlistarlíf og nýsköpun á Vestfjörðum með metnaðarfullri tónleikadagskrá og einnig er námskeiðahald mikilvægur þáttur í hátíðinni.
Handhafar Eyrarrósarinnar 2011 eru Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Önnur menningarverkefni sem hlotið hafa Eyrarrós í hnappagatið eru tónlistarhátíðin Bræðslan, Landnámssetrið í Borgarnesi, rokkhátíðin Aldrei fór ég suður, Strandagaldur á Hólmavík, LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, segir í fréttatilkynningu.