„Erum vonandi komnir á beinu brautina“

„Það er óhætt að segja að það sé þungi fargi af okkur létt. Það var komin smá pressa á okkur,“ segir Baldur Már Stefánsson fyrirliði Þórs. Norðanmenn fögnuðu langþráðum sigri í 1. deild karla í körfuknattleik með 83-80 sigri gegn liði Hamars á heimavelli í síðustu viku. Eric James Palm, nýjasti liðsmaður Þórs, var hetja heimamanna í leiknum en hann tryggði Þór sigurinn með flautukörfu í leikslok. Það er óhætt að segja að hinn bandaríski Eric byrji með látum hjá Þór en þetta var fyrsti leikur hans með félaginu. Hann lenti á Akureyri daginn fyrir leik og var því ekki búinn að æfa neitt að ráði með Þór fyrir leikinn, en small vel inn í liðið. „Það er óhætt að segja að hann komi vel inn í þennan hóp og þetta er held ég sá maður sem okkar vantaði. Þetta er afgerandi góður skorari og kemur til með hjálpa okkur mikið,“ segir Baldur, en Eric James lék með Þór Þorlákshöfn í 1. deildinni í fyrra sem fór upp um deild. Eric var stigahæstur í liði Þórs með 22 stig gegn Hamri en Stefán Karel Torfason skoraði 18 stig. Þór hefur nú tvö stig á botni deildarinnar eftir átta leiki en Hamar situr í fimmta sæti með átta stig.
Var farið að leggjast á hópinn
Baldur viðurkennir að slæmt gengi Þórs í vetur hafi haft áhrif á stemmninguna í liðinu. „Þetta var farið að leggjast svolítið á hópinn, það er ekki hægt að neita því. Þetta er búið að vera langt undir væntingum í vetur hjá okkur þó vissulega séum við með breytt lið frá því í fyrra. Við ætluðum okkur í úrslitakeppnina í ár en höfum gert okkur sjálfum erfitt fyrir. Það var hins vegar mjög mikilvægt að ná þessum sigri og það hefði verið ansi leiðinlegt að enda árið án stiga. Við erum vonandi komnir á beinu brautina og ætlum að klára árið með stæl,“ segir hann. Þór á einn deildarleik eftir á árinu en liðið sækir FSu heim um miðjan mánuðinn. Næsti leikur Þórs er hins vegar bikarleikur í Eyjum gegn ÍBV um helgina.

Nýjast