Erum að útskrifa marga afburðarnemendur að þessu sinni

Verkmenntaskólinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Verkmenntaskólinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Ríflega 190 nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í morgun og fór athöfnin fram í Hofi. “Útskriftarhópurinn í dag er glæsilegur. Að þessu sinni erum við að útskrifa marga afburðarnemendur frá skólanum og eru alls 191 nemandi að brautskrást með 223 skírteini. Þetta er fjölmennasti hópur sem hefur verið útskrifaður frá skólanum og alls höfum við útskrifað 292 nemendur á þessu skólaári þar sem 101 nemandi var útskrifaður í desember,” sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari í ræðu sinni.  

“Nokkrir nemendur eru nú að útskrifast með tvö og jafnvel þrjú prófskírteini. Sá möguleiki sem áfangakerfið gefur nemendum til að hafa fjölbreytileika í náminu sínu er nánast óendanlegur. Þeir nemendur sem velja að taka iðn- eða starfsnám og bæta síðan við stúdentsprófinu eru á margan hátt mjög vel undirbúin undir háskólanám. Sérstaklega á það við nemendur sem ætla sér í verk- eða tæknifræði þar sem mikilvægt er aðgerasér grein fyrir því hvernig það er að starfa við vélar og tæki eða á byggingastað. Þá eru hér nokkrir sjúkraliðar sem útskrifast einnig sem stúdentar og ég veit að sá undirbúningur er afar góður fyrir allt háskólanám í heilbrigðisvísindum. Þá erum við að útskrifa 14 iðnmeistara þar sem helmingur þeirra hefur tekið meistaranám sitt að mestu í gegnum fjarnám VMA en hinn helmingurinn í gegnum í kvöldskóla en kvöldskólaformið var endurvakið í iðnmeistaranáminu eftir nokkurra ára hlé nú í vetur,” sagði Sigríður Huld. 

Í morgun voru nemendur í hársnyrtiðn útskrifaðir í fyrsta skipti í mörg ár. “Við erum stolt af því að hafa stigið það skref fyrir fjórum árum að hefja aftur kennslu í hársnyrtigreinum og eru nokkrir af þessum nemum sem við útskrifum núna á leið í sveinspróf. Það er alltaf ákveðin tilhlökkun hjá okkur í skólanum að heyra hvernig nemendum okkar gengur í sveinsprófum því þar verða verk kennara og nemenda lögð í endanlegt mat. Svo þið sem eruð að fara í sveinspróf á næstunni – þetta er enginn pressa frá okkur, við vitum að þið komið til að standa ykkur vel.”

Sigríður Huld sagði að nú væru ákveðin tímamót í brautskráningu vélstjóra þar sem þetta er síðasti hópurinn sem lýkur námi eftir námskrá þar sem réttindin eru nefnd 1. 2. 3. og  4.-stig en tveir nemendur eru að ljúka námi eftir nýrri námskrá þar sem réttindin eru nefnd A B C og D-réttindi. “Í dag er uppgangur og bjart yfir málmiðnaðinum í landinu og vöntun á starfsmönnum með góða menntun á þessu sviði. Umsóknum um nám í málm- og véltæknigreinum hefur fjölgað síðustu ár enda um nokkrar leiðir fyrir nemendur að velja eftir grunndeild. Framundan eru einnig spennandi tímar fyrir málm- og véltæknigreinarnar því VMA hefur verið boðið að vera með í verkefni sem tækniskóli íStavangerí Noregi heldur utan um,  en verkefnið snýst um að undirbúa nám á framhaldsskólastigi í sambandi við olíuleit með skólum á Íslandi (VMA), Færeyjum og Grænlandi,” sagði Sigríður Huld. 

Í útskriftarhópnum eru nokkrir nemendur sem farið höfðu í gegnum svokallað raunfærnimat þar sem þeir fengu metna til eininga þá fagþekkingu sem þeir höfðu. Sigríður Huld nefndi sérstaklega hóp matartækna.  “Fyrir ári síðan hitti ég hóp 13 ófaglærðra reynslumikilla kvenna sem flestar störfuðu í skólamötuneytum hér á Akureyri. Þessi hópur hafði farið í raunfærnimat og nú var það skólans að útbúa námsleið fyrir þær til að klára pakkann. Það gerðum við í samvinnu við SÍMEY og Sveitamennt sem er starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni. Þessar konur komu á kynningarfund í VMA síðast liðið vor, margar með hnút í maganum og skelfingarsvip yfir því að vera komnar í þessa stöðu að ætla í skóla. Sumar höfðu aldrei verið í framhaldsskóla og því töluvert átak að taka þetta skref. Með styrk frá hvor annarri og frábæru starfi kennaranna tókst þeim að klára faggreinarnar sem vantaði upp á og núna erum við að útskrifa hluta af hópnum.”

Sigríður Huld minntist sérstaklega á eina úr hópnum sem hefur svolítið ólíkan bakgrunn miðað við flesta. “Þessi kona fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Akureyrar fyrir 10 árum síðan sem flóttamaður frá Serbíu. Við komuna til landsins hafði hún engin gögn um menntun sína í heimalandinu en hún hafði lært til kokks í heimalandinu. Gögnin hennar eru ekki lengur til þau hurfu í sprengjuregni og eldum. Hún er ein af mörgum sigurvegurunum okkar hér í dag og skírteinið sem hún fær hér á eftir veit ég að er henni afar dýrmætt. Við hin getum ekki sett okkur í þau spor sem hún og landar hennar hafa þurft að vera í en ég held að við hin getum lært það af sögu hennar að sumir hlutir sem við teljum sjálfgefna eru það ekki alltaf. Ég má líka til með að nefna það líka að dóttir hennar er líka að útskrifast sem stúdent frá okkur í dag.”

 

Nýjast