Halldór segir ýmsar ytri aðstæður ráða miklu í þessum efnum, m.a. að margir læknar sem starfi erlendis séu ekki endilega að hugsa sér til hreyfings heim til Íslands um þessar mundir. Þá séu læknar einnig á förum til útlanda þar sem bjóðist betri kjör. Þá nefnir hannað læknar hafi horfið frá stöfum af Landspítala sem þýði að þar á bæ sé líka verið að leita að læknum til starfa sem auki enn á samkeppni um þá.
Halldór segir að samstarf sé fyrir hendi milli Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala þannig að læknar að sunnan sinni ákveðnum verkefnum fyrir norðan og brúi þannig bilið á meðan varanlegra lausna sé leitað. Það eigi m.a. við um krabbameinslækningar, en sérfræðing á því sviði vanti á Akureyri, til að halda sama þjónustustigi hafa læknar af Landspítala komið norður. Það sama sé uppi á teningnum varðandi meinafræðina, en enginn sérfræðingur sé nú að störfum í bænum og verkefnum sinnt með komum lækna að sunnan. „Þetta hefur virkað ágætlega, en er auðvitað dálítið púsl að koma öllu heim og saman," segir Halldór.
„En það er ekki allt á einn veg," bætir hann við og nefnir að læknar hafi komið til starfa á sjúkrahúsið, m.a. bæklunar-, svæfinga,- og fæðinga- og kvensjúkdómalæknar. Þá sé væntanlegur indverskur myndgreiningalæknir, en erfiðlega hefur gengið að fá íslenska lækna á því sviði til starfa, þeir eru að sögn Halldórs ekki á hverju strái.
„Við höfum allar klær úti við að útvega það starfsfólk sem til þarf, á meðan við leitum varanlegra lausna höfum við önnur úrræði til að brúa bilið, en vissulega má almennt segja að þetta er mikil og erfið barátta sem að stórum hluta til er vegna ytri aðstæðna," segir Halldór.