Þetta leggst bara ljómandi vel í mig og ég er bara mjög spenntur fyrir því að koma aftur heim, segir varnarmaðurinn Orri Freyr Hjaltalín sem hefur ákveðið að ganga í raðir Þórs frá Grindavík. Orri mun gera tveggja ára samning við norðanliðið og er hann gríðarlega mikill liðsstyrkur fyrir Þór fyrir átökin í 1. deildinni næsta sumar. Í spjalli við Vikudag segir Orri að hugurinn hafi lengi leitað heim.
Það eru búnir að vera svolítið erfiðir tímar hérna í Grindavík þessar vikur eftir mót og ég er bara mjög sáttur við þessa niðurstöðu. Maður hefur alltaf verið að skoða þann möguleika að koma heim og svo fljótlega eftir mót þá ákváðum ég og konan mín að það væri gaman að fara norður. Það er bara eitt lið hérna fyrir norðan sem ég myndi spila með þannig að það var bara Þór sem kom til greina, segir hann. Orri er uppalinn Þórsari og lék síðast með liðinu í 1. deildinni árið 2003. Hann á að baki 210 leiki í 1. deild og efstu deild með Þór og Grindavík, en hann hefur verið í herbúðum Grindavíkur síðan 2003 og verið fyrirliði liðsins undanfarin ár. Hann segist spenntur fyrir því að spila í 1. deildinni næsta sumar.
Það er enginn svakalegur munur á milli efstu deildar og fyrstu deildar. Það eru mörg sterk lið í 1. deildinni sem vilja fara upp um deild og þetta verður örugglega jöfn og skemmtileg deild. Mér líst vel á Þórsliðið. Þetta eru ungir og sprækir strákar en liðið var svona upp og ofan í sumar. Það er vonandi að maður geti komið með smá reynslu og hjálpað liðinu, segir Orri Freyr Hjaltalín.