Endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason

Á föstudag og laugardag næstkomandi fer fram alþjóðleg ráðstefna í Háskólanum á Akureyri í samstarfi við stjórnarskrárnefnd og forsætisráðuneytið. Þetta verður fyrsta heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, í háskólann en hann heldur opnunarerindið.

Til máls taka fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar, þar á meðal Páll Þórhallsson, formaður stjórnarskrárnefndar, og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, sem verður með framsöguerindi. Í kjölfar þess fara fram umræður með þátttöku fulltrúa stjórnmálaflokkanna í stjórnarskrárnefnd.

Rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson, er afar ánægður með að háskólinn skuli hýsa fræðilegar umræður um þetta mikilvæga málefni. „Það er okkur mikill heiður að fá að taka á móti nýjum forseta sem setur málefni stjórnarskrárinnar svo ofarlega á sína dagskrá“, segir rektor.

Á ráðstefnunni gefst almenningi tækifæri til að hlýða á og ræða við bæði fræðimenn og stjórnmálamenn um þá tilraun til breytingar á stjórnskipun landsins sem staðið hefur yfir frá því í júní 2010 og vakið hefur athygli langt út fyrir landsteinana. Fundarstjórar eru Ágúst Þór Árnason frá Háskólanum á Akureyri og Catherine Dupré frá University of Exeter. 

Ráðstefnan er öllum opin á meðan húsrúm leyfir og er án endurgjalds.

Dagskrá ráðstefnunar má sjá hér.

 

 

Nýjast