Eldfjallabrugg hefur framleiðslu á vodkagosi

Rúnar Friðriksson og Alfreð Pálsson skrifa undir samninga um átöppun við Agnesi Sigurðardóttur og Ól…
Rúnar Friðriksson og Alfreð Pálsson skrifa undir samninga um átöppun við Agnesi Sigurðardóttur og Ólaf Ólafssonhjá Kalda.

„Við höfum fengið framúrskarandi viðtökur og veitingamenn taka þessari nýjung opnum örmum,“ segir Rúnar Friðriksson  sölustjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins Eldfjallabrugg sem um þessar mundir er að senda frá sér vodkagosið Volcanic Energy. Alfreð Pálsson er framkvæmdastjóri og með þeim í fyrirtækinu er Ragnar Tryggvason. Fyrirtækið var stofnað í apríl í fyrra, skömmu áður en gos hófst í Eyjafjallajökli.

Ári síðar hófst svo gos í Grímsvötnum og varð til þess að hleypa nýjum krafti í eigendur fyrirtækisins að ljúka þeirri vinnu sem hafin var í tengslum við framleiðslu á íslensku áfengu eldfjallagosi. Upphaf fyrirtækisins má rekja til tveggja norðlenskra manna, Rúnars Friðrikssonar og Alfreðs Pálssonar. Þeir fóru að viðra gamlan draum um möguleika á framleiðslufyrirtæki sem sérhæfði sig í áfengisframleiðslu. „Við vorum búnir að pæla mikið og lengi í þessu, framleiðslu af ýmsu tagi og fannst sérlega heillandi, ekki síst í ljósi atvinnuástandsins og almennu árferði í landinu að leggja okkar af mörkum til að skapa vinnu og framlegð,“ segir Rúnar, en eftir að Ragnar Tryggvason, brottfluttur Akureyringur með milkla reynslu á þessum vettvangi kom inn í verkefnið fóru hjólin að snúast.

Ragnar hefur áratugareynslu af bruggun og framleiðslu drykkja, einkum og sér í lagi drykkjum af þessu tagi. Hann er nú meðeigandi í fyrirtækinu og mun stýra framleiðslunni í samvinnu við Bruggsmiðjuna Kalda á Árskógsströnd, en þar verður vodkagosinu tappað á flöskur. Rúnar segir að fyrir sé á markaðnum eingöngu innfluttar vörur og sterk vörumerki, þær eru í 275 ml flöskum og innihalda flestar 4% alkóhól. Volcanic Energy er hins vegar framleitt í 330 ml stærð og alkóhól er 4,5%. „Okkar vörur verða samt á svipuðu verði þannig að við fullyrðum að þar séu bestu kaupin,“ segir hann. Markaður á vodkagosi hefur að sögn Rúnar farið minnkandi og þá aðallega að hans mati vegna þess hve dýrar vörurnar eru, umbúðir hafa minnkað sem og alkóhólmagn.

Til að byrja með sendir fyrirtækið frá sér þrjár tegundir en fleiri munu eflaust bætast við síðar. „Það mun þó alfarið byggjast á viðtökum neytenda, við ætlum okkur að vera í nánum tengslum við þá og hlusta eftir þeirra þörfum og löngunum,“ segir Rúnar. „Okkar markmið er að vera leiðandi á þessum markaði, bjóða gæðavöru á góðu verði.“
Í fyrstu ætla þeir félagar að einbeita sér að innanlandsmarkaði, en Rúnar segir ekki ólíklegt að síðar menn horfi með víðar. „Við erum að skoða nokkrar mjög spennandi leiðir í þeim efnum,“ segir hann og bætir við að umbúðirnar séu sérlega heppilegar hvað útflutning varðar, en það var Guðrún Hilmisdóttir hjá Blekhönnun á Akureyri sem sá um þann þátt, en Fjóla Karlsdóttir hjá Samráði  sá um markaðsrannsóknir.

Nýjast