Aðalsteinn Á. Baldursson er tíður gestur á síðum fjölmiðla en þá yfirleitt í tengslum við verkalýðsmál enda formaður Framsýnar, stéttarfélags. Í vikunni tók hann hins vegar á móti blaðamanni í sauðfjárbúi sínu Grobbholti á Húsavík sem búfræðingurinn Kúti, en það er nafnið sem hann notar oftast í heimahögunum og það verður jafnframt gert í þessari grein.
Undirritaður hefur tekið þau ófá viðtölin við Kúta um hin ýmsu málefni í gegnum tíðina. Þau eru ætíð fróðleg enda er Kúti ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og fyrirsagnirnar renna jafnan út úr honum á færibandi. Aldrei er Kúti þó skemmtilegri en sem gestgjafi í Grobbholti. Því fékk blaðamaður að kynnast í vikunni þegar sögurnar ultu upp úr stórbóndanum á meðan hann sýndi stórbúið.
Kúti tilheyrir að nafninu til þeim sérlundaða þjóðfélagshópi, hobbýbændur á Húsavík. En það fer nú ekki vel að skeyta þessu orðskrípi „hobbý“ við stórbúið að Grobbholti enda hefur þar verið ræktað fram eitt það besta sauðfjárkyn landsins síðustu áratugi, a.m.k að sögn Kúta en búið telur í dag 45 ær.
Nú stendur yfir sauðburður og þá er búfræðingurinn Kúti í essinu sínu. Vakir yfir kindunum sínum og tekur á móti gestum, tugum talsins hvern einasta dag og það leiðist Kúta ekki.
Hann tekur á móti blaðamanni með opinn arminn við fjárhúsið en þar fyrir utan er hann búinn að útbúa heljarinnar gestastofu. „Þetta er að verða svo mikið stórbú að syðri hlutinn af túninu er notaður fyrir þær ær sem eru búnar að bera en þær sem eru eftir eru norðan við,“ segir Kúti og bendir í kringum sig.
Kúti verður sposkur á svip þegar blaðamaður spyr hvort það séu ekki allar ær tví- og þrílembdar í Grobbholti. „Sko ég má ekki ljúga núna. Yfirleitt eru þær margar þrílemdar en það vill svo til núna að það er ekki nein komin þrílembd og það er bara sögulegt,“ segir Kúti og bætir við að um helmingur þeirra séu búnar að bera en viðtalið var tekið á mánudag.
En Kúti er með útskýringar á reiðum höndum um það hvers vegna frjósemin hefur dvínað. „Síðastliðið sumar var bara mjög slæmt fyrir sauðkindina. Það kom hret í júní og það meira segja dó fé í úthaganum og maður sér það bara að þær eru bara búnar að vera ná sér í vetur. Þetta hefur allt áhrif,“ útskýrir hann.
Maður heyrir alltaf að hér í Grobbholti sé stöðugur gestagangur og það fari í raun meiri tími í að taka á móti gestum en að taka á móti lömbum?
„Já já, þetta er gestastofan segir kúti og bendir á pallinn við fjárhúsið sem er tryggilega afgirtur. Þetta gerðum við af því að hér er talsvert áreiti af sauðfé, þær leita mikið í fólk, kindurnar í Grobbholti, enda einstaklega mannblendnar. Við erum að fá að meðaltali 30 manns á dag en ég var t.d. með 30 manna hóp í morgun. Svo er yfirleitt meira af fólki um helgar og svo ber leikskólinn þetta svolítið uppi en þaðan koma hópar daglega yfir sauðburð,“ segir Kúti og er greinilega í sjöunda himni, slík er innlifun hans þegar hann segir frá.
Það vildi líka til að þegar einn leikskólahópurinn kom á dögunum að ein var komin að því að bera. Kúti spurði þá starfsfólk leikskólans hvort einhver vildi aðstoða við að taka á móti. Elena Martinez Pérez frá Kaldbak var fljót að gefa sig fram en hún hafði að sögn Kúta alltaf dreymt um að taka á móti lambi og var heldur ekki í vandræðum með það. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd naut hún þess líka í botn.
„Mér finnst þetta alveg rosalega gaman. Það er að koma hingað alls konar fólk á öllum tímum og það veit að hér eru allar dyr opnar og allir velkomnir. Fólk kemur mikið með börnin sín og er með þau liggur við bara í pössun,“ segir Kúti.
Grobbholt er líka við vinsæla gönguleið sem eldra fólk notar mikið sér til heilsubótar og Kúti sá sér leik á borði og smíðaði fallegan bekk við innkeyrsluna að búinu. „Já ég gerði það að gamni mínu og setti upp bekk við veginn sem fólk notar mikið til að kasta mæðinni og ég hef fengið margar beiðnir um að breikka bekkinn,” segir Kúti og hlær.
Hróður Grobbholts hefur borist víða og segir Kúti að öll helstu fyrirmenni sem leggi leið sína til Húsavíkur komi við í Grobbholti og tekur sem dæmi að Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra hafi eitt sinn kíkt í heimsókn og í kjölfarið hafi Grobbholt ratað á baksíðu metsölubókar hans. „Það var tekin mynd af honum hér í stólnum í gestastofunni en sú mynd prýddi baksíðu sjálfsævisögu hans,“ segir Kúti og opnar dyrnar að fjárhúsinu og vísar blaðamanni stoltur inn.