Eining-Iðja vill ekki segja upp samningum

Á fjölmennum fundi trúnaðarráðs og samninganefndar félagsins í gær var samþykkt að segja ekki upp kjarasamningum en jafnframt var ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir að efna ekki gefin loforð í tengslum við gerð kjarasamninga í maí í fyrra. Leynileg kosning fór fram á fundinum og mikill meirihluti fundarmanna, eða rúmlega 83%, vildu ekki segja upp samningunum. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segist því fara með afgerandi niðurstöðu inn á formannafund SGS í dag og formannafund ASÍ á fimmtudaginn. 

„Þetta var alveg afgerandi niðurstaða og ég mun koma henni til skila á þeim fundum sem framundan eru. Þó þetta hafi verið niðurstaðan þá var ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir að efna ekki gefin loforð. Það er krafa Einingar-Iðju að ríkisstjórnin efni alla þætti yfirlýsingar sinnar. Samtök atvinnulífsins hafa staðið við gerða samninga en það gengur ekki að ríkisstjórnin standi ekki við fyrirheit sín. Við verðum að tryggja stöðugleika í landinu, en það verða allir að koma að því verki. Það virðist því miður sem stéttarfélögin í landinu séu tilbúin til að leggja mun meira á sig til að tryggja það en ríkisstjórn Íslands.“

Á fundinum var verið að fjalla um stöðu samninga við endurskoðun nú í janúar, en ákvörðun um hvort segja eigi þeim upp eður ei þarf að liggja fyrir undir lok vikunnar. Ályktun vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar á þeim loforðum sem hún gaf út í tengslum við gerð síðustu kjarasamning var samþykkt á fundinum.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, fór yfir stöðu kjarasamninga fyrir endurskoðun nú í janúar. Hann sagði frá forsendunefnd sem hefur tvíþætt hlutverk. Annars vegar að fylgjast með gangi mála og reyna að hafa áhrif og hinsvegar að meta hvort forsendur standi. Hjá honum kom m.a. fram að meginforsenda samninganna hefur staðist, þ.e. kaupmáttur hefur aukist. Há verðbólga er hins vegar áhyggjuefni eins og lítil styrking krónunnar, reyndar gera spár ráð fyrir að verðbólga lækki hratt með vorinu. Hann sagði að sérstakt áhyggjuefni væri það sem snýr að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var gerð í tengslum við kjarasamningana. Þrátt fyrir að margt hefði verið framkvæmt í samræmi við fyrirheit hallar verulega á stjórnvöld og ber þar hæst svik um að hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði í takt við launahækkanir 1. febrúar nk. Þá nefndi hann skattlagningu á lífeyrissjóði á almennum markaði sem þýðir að óbreyttu skerðingu lífeyris félagsmanna ASÍ og hægt gengur að taka á vanda opinberu sjóðanna.

Miklar umræður urðu á fundinum og var minnst á að getuleysi ríkisstjórnarinnar við að efna þætti yfirlýsingar sinnar í tengslum við síðustu kjarasamninga væri með öllu ólíðandi. Fundarmenn töluðu um að nú dynji á launafólk skattahækkanir og ýmsar gjaldskrárhækkanir og að ekki mætti gleyma svikum stjórnvalda á hækkun bóta almannatrygginga. Minnst var á að auknar fjárfestingar í atvinnulífinu og opinberar framkvæmdir hafi ekki aukist eins og stefnt var að og voru fundarmenn á því að sorglegt væri að fylgjast með deilum um Vaðlaheiðargöng. Framkvæmdir við þau ættu að vera hafnar fyrir löngu. Á fundinum var samþykkt ályktun vegna Vaðlaheiðarganga sem lesa má hér fyrir neðan. 

Ályktun vegna vanefnda ríkisstjórnar

„Trúnaðarráð Einingar-Iðju og samninganefnd félagsins lýsa yfir miklum vonbrigðum með vanefndir ríkisstjórnarinnar á loforðum sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga og skora á hana að efna alla þætti þeirra. Aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við öll ákvæði samninga en það vantar mikið upp á að ríkisstjórnin standi við loforð sín. Við slíkan trúnaðarbrest verður ekki unað. Það er ólíðandi með öllu og ámælisvert að ríkisstjórnin skuli enn ekki hafa staðið við fyrirheit sín og að stéttarfélög landsins geti ekki treyst yfirlýsingum hennar.“

Ályktun um Vaðlaheiðargöng

„Trúnaðarráð Einingar-Iðju og samninganefnd félagsins skora á stjórnvöld að hefja strax framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Ekki má nota verkefnið sem afsökun fyrir því að aðrar framkvæmdir á vegum ríkisins dragist á langinn, þar sem um einkaframkvæmd er að ræða. Það er sláandi að heyra úrtöluraddir ýmissa ráðamanna sem finna verkinu allt til foráttu. Vaðlaheiðargöng eru bæði þjóðhagslega hagkvæm og koma til með að styrkja stórt svæði hvað varðar atvinnuuppbyggingu, öryggi og samgöngur. Vinna við Vaðlaheiðargöng mun skapa nauðsynleg atvinnutækifæri og miðað við aðstæður í dag þá þarf að setja framkvæmdir við þau í gang strax.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

 

 

Nýjast