Ein almannavarnarnefnd starfandi í Eyjafirði

Frá undirritun sameiningar almannavarana í umdæmi lögreglustjórans á Akureyri.
Frá undirritun sameiningar almannavarana í umdæmi lögreglustjórans á Akureyri.

Ein almannavarnanefnd er nú starfandi á Eyjafjarðarsvæðinu, en um áramót bættist Fjallabyggð við Almannavarnarnefnd Eyjafjarðar.  Innanríkisráðherra staðfesti breytinguna í byrjun mars og barst hún sýslumanni nú í vikunni, en hann er yfirmaður Almannavarnarnefndar Eyjafjarðar. Björn Jósef Arnviðarsson sýslumaður segir að Eyjafjörður sé eitt lögregluumdæmi og því hafi þótt eðlilegt að hafa einnig eina almannavarnarnefnd yfir allt svæðið.  Öll sjö sveitarfélögin í Eyjafirði standa nú saman að nefndinni eftir að Fjallabyggð hefur bæst í hópinn.

„Við erum nú með öflugt stjórntæki fyrir allan Eyjafjörð sem getur brugðist við komi upp vá á svæðinu sem kallar á að nefndin komi að málum,“ segir Björn Jósef. Almannavarnarnefnd Eyjafjarðar starfar á grundvelli gildandi laga og reglugerða á hverjum tíma, en helstu hlutverk hennar er m.a. að móta stefnu og skipuleggja starf sitt að almannavörnum í héraði sem og að  vinna að gerð hættumats og viðbragðsáætlana. 

Nefndin starfrækir eina aðgerðarstjórn sem hefur aðsetur  á Akureyri og samhæfir hún, að sögn Björns Jósefs, aðgerðir ef upp kemur einhver sá atburður sem kallar á aðgerðir nefndarinnar. Þá eru starfandi tvær vettvangsstjórnir, í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð.

 

Nýjast