„Eigum helmings möguleika"

Úrslitakeppnin í N1-deild karla í handknattleik hefst í kvöld þegar FH og Akureyri mætast í fyrsta leik í undanúrslitum í Kaplakrika kl. 19:00. Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit og er leikið heima og heiman til skiptis. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við deildarmeistarar Hauka og HK og verður fyrsti leikur hjá þeim annað kvöld. Vikudagur tók stutt spjall við fyrirliðann Heimi Örn Árnason og Bjarna Fritzson, leikmenn Akureyrar og verðandi þjálfara þess, um rimmuna gegn FH.

„Þetta verður gríðarleg barátta. Ég á marga góða félaga í FH og veit jafnvel og þeir að þetta verður svakaleg rimma,“ segir Heimir Örn. „Ég ætla að vona að þetta verði jafn skemmtilegt í Kaplakrika og í fyrra. Það var frábær umgjörð en þessi tvö lið eiga langbestu umgjörðina á heimavelli þegar þau taka sig til,“ segir hann. FH og Akureyri mættust einmitt í úrslitum í fyrra og þar hafði FH betur, 3-1. „Við eigum harma að hefna og ætlum okkur áfram. Ég tel að það séu helmingslíkur á að það takist.“

„Ég er gríðarlega spenntur og reikna með frábæru einvígi,“ segir Bjarni. „Þetta eru hníjöfn lið og ég held að þetta fari í fimmta leik og að það muni einu marki á liðunum í þeim leik. Svo jafnt verður þetta. Auðvitað hefði maður viljað hafa heimaleikjaréttinn, við eigum frábæra stuðningsmenn og magnaðan heimavöll. En við verðum  að vinna einn leik á útivelli og það er bara verkefni fyrir okkur að vinna," sagði Bjarni Fritzson.

Nýjast