Eiginleg haustflensa lét ekki á sér kræla

Heilsufar bæjarbúa hefur verið í meðallagi á haustmánuðum, að sögn Þóris V. Þórissonar yfirlæknis á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Hann segir að talsvert hafi verið af alls kyns veirusýkingum í gangi í þjóðfélaginu undanfarna mánuði, en ekki varð vart við nein tilfelli af inflúensu.  Hin svokallaða haustflensa var ekki eiginleg inflúensa, en upp komu á stundum inflúensulíkar veirusýkingar, sem eru að sögn Þóris nógu slæmar fyrir þá sem af þeim veiktust.

Nóróveirusýking hefur geisað á meðal bæjarbúa nú í desember og um jólin. Einkennin eru uppköst og bráður niðurgangur, oft með kviðverkjum og hita, í 3-5 daga. Um tíma voru nokkrir sjúklingar á Lyflækningadeild FSA með nóróveirusýkingu en það tókst að uppræta hana þar.  Þóri er ekki kunnugt um að fleiri tilfelli hafi komið upp á deildum sjúkrahússins. Vegna þessa eru mjög strangar ábendingar fyrir innlögn á FSA fyrir sjúklinga með sýkinguna.

 

Nýjast