Eigandi Sjanghæ höfðar mál gegn Rúv

Sjanghæ er í miðbæ Akureyrar.
Sjanghæ er í miðbæ Akureyrar.

Eigandi veitaningastaðarins Sjanghæ á Akureyri hefur ákveðið að leita réttar síns  vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins (Rúv) um málefni staðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmanni veitingastaðarins Jóhannesi Má Sigurðssyni. Þann 30. ágúst sl. var greint frá því í beinni útsendingu í kvöldfréttum Rúv að grunur léki á því að eigandi Sjanghæ stundaði mansal, samkvæmt heimildum frá starfsmönnum stéttarfélagsins Einingar-Iðju  á Akureyri.

Greint var frá því að kínverskir starfsmenn staðarins, sem hafi fengið loforð um góða atvinnu og framtíðarbúsetu hér á landi gegn því að greiða háa fjárhæð fyrir, fengju greiddar 30 þ. krónur á mánuði, matarafganga að borða, og að fulltrúar stéttarfélagsins væru nú að skoða ásamt fleiri opinberum aðilum hver, „finni fólkið í Kína og komi því hingað til lands.“

„Í samtali við fréttamann Rúv á Akureyri, þann 31. ágúst, að loknum fundi með umbj. mínum og Einingu-Iðju, upplýsti undirritaður lögmaður fréttamann um það að á fundinum hafi formaður stéttarfélagsins og verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits fullyrt að rangt væri að heimildir þessar væru frá þeim komnar. Í kjölfarið ítrekaði stéttarfélagið þetta í yfirlýsingu sinni, dags. 5. september. Að auki var þar greint frá því að upplýsingar sem fram komu í þeim gögnum sem kallað var eftir stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum.

Dótturinn í áfalli og grét

Fréttatilkynningu þessari fylgir bréf frá umbj. mínum þar sem hún telur rétt að kynn sig fyrir landsmönnum vegna hinnar miklu fjölmiðlaumfjöllunar sem málið hefur fengið. Lýsir hún í eigin orðum afleiðingum fréttaumfjöllunarinnar, og nefndir m.a. að 30. ágúst hafi verið myrkur dagur í lífi hennar og fjölskyldunnar. Hafi hún verið að koma af skólasetningu Tónlistarskólans á Akureyri með 8 ára dóttur sinni, og ætlunin hafi verið að snæða kvöldverð á veitingastaðnum. Þegar þangað var komið hafi þeim mætt lið fréttamanna með myndavélar og tækjabúnað, sem hafi reynst dóttur hennar afar erfitt. Hafi dóttir hennar í kjölfarið falið sig hágrátandi inni á veitingastaðnum og haft miklar áhyggjur af því hvort móðir hennar væri að fara í fangelsi.

Rík skylda hvílir á fjölmiðlum og fréttamönnum að fylgja siðareglum, starfsreglum og öðrum hátternisreglum, sérstaklega þegar kemur að umfjöllun um meinta refsiverða háttsemi, en mansal varðar allt að 12 ára fangelsi. Að þessu var ekki gætt við fréttaflutnings Rúv þann 30. ágúst sl. Hefur umbj. minn því ákveðið að leita réttar síns og falið undirrituðum að undirbúa stefnu á hendur Rúv, fréttamanni og öðrum sem ábyrgð kunna að bera," segir í tilkynningu.

 

Nýjast