Heiðrún E. Jónsdóttir átti Lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Það hafa orðið gífurlegar breytingar á íslensku samfélagi undanfarna áratugi, ekki síst er snýr að stöðu kvenna. Á pólitíska sviðinu fóru konur að gera sig meira gildandi en áður og kvennaframboð fór örugglega fyrir brjóstið á einhverjum. Þeir hinir sömu höfðu engan skilning á því hvað frú Vigdís Finnbogadóttir vildi upp á dekk í forsetaframboði sínu. Í viðtölum hafa þessir frumkvöðlar lýst því hvernig mönnum fannst þær frekar og dónalegar.
Staða kvenna í dag á Íslandi
Nú er staðan þannig að konur eru í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum. Konur gegna embætti forseta, forseta Alþingis, biskups, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, borgarstjóra, bæjarstjóra, forstjóra, rektora háskólanna, lögreglustjóra og svo mætti lengi telja. Heimsþing kvenleiðtoga Nú í vikunni var haldið hér á Íslandi, Heimsþing kvenleiðtoga. Á þeim fundi var kynnt niðurstaða úr nýrri könnun sem kortleggur viðhorf til kvenna og karla í leiðtogastöðum. Ísland er áfram efst á þeim lista og kemur ekki mjög á óvart. Þó eru ákveðin vonbrigði að viðhorf til kvenleiðtoga virðist hafa versnað í mörgum stærstu ríkjum heims á síðustu árum, sérstaklega meðal yngra fólks, t.d. í Bandaríkjunum og Þýskalandi.
Verjum góðan árangur
Það ætti að hvetja okkur til að verja þann góða árangur sem við höfum náð en einnig að vera þakklát. Þessi árangur er sannarlega ekki sjálfsagður og honum var náð vegna baráttu þeirra kvenna sem á undan okkur fóru.
Fjöllum um góðan árangur
Fjalla mætti meira um hversu góðum árangri við höfum náð, önnur ríki horfa til Íslands í jafnréttismálum. Í opinberri umræðu mætti stundum halda að hér væri allt í kalda koli og fremur er tínt til sitthvað sem sannarlega mætti fara betur í stað þess að horfa á heildarmyndina.
Seigla, baráttur, kjarkur og framsýni
Ótrúleg barátta, kjarkur, seigla og framsýni hjá þeim konum sem ruddu brautina fyrir okkur hinar sem eftir koma. Það skiptir máli að viðhalda frábærum árangri og sofna ekki á verðinum. Ísland er það land sem er komið einna lengst i jafnrétti. Konur í mörgum löndum gæfu mikið fyrir það sem við þó höfum. Staða stúlkna og kvenna hefur versnað í öðrum heimshlutum og fara sífellt versnandi.
Stuðningur okkar bestu manna
En ég vil gerast svo djörf að fullyrða að þetta sé ekki eingöngu málefni okkar kvenna og árangur kvenna. Að jafnaði eigum við frábæra feður, bræður, eiginmenn, syni, frændur og vini. Við hefðum ekki náð þessum árangri án þeirra. Vissulega hefur þessi barátta tekið tíma og margir þeirra hafa verið erfiðir. Þá má enn tína til atriði sem enn þarf að berjast fyrir. En við hefðum ekki náð þessum einstaka árangri án þeirra.
Ég er þakklát
Við konur búum við miklu betri aðstæður en fyrir 50 árum. Ísland er leiðandi þegar kemur að frelsi og réttindum kvenna.