„Ef ég segðist muna það þá væri ég ruglaður"

Jónas Jónasson, bóndi á Héðinshöfða kvartar ekki þó spretta gæti hafa verið betri. Í dráttarvélinni …
Jónas Jónasson, bóndi á Héðinshöfða kvartar ekki þó spretta gæti hafa verið betri. Í dráttarvélinni í baksýn er Arnar Ingi Sæþórsson frá Presthvammi. Mynd/epe.

Bændur á Norðurlandi eru flestir að ljúka slætti en spretta hefur víða verið dræm. „Já – sprettan er víða undir meðaltali, sérstaklega þar sem tún eru viðkvæm fyrir þurrki, svo sem í Mývatnssveit,  Bárðardal, Aðaldal og Kelduhverfi,“ segir María Svanþrúður Jónsdóttir, ráðunautur rekstrar- og umhverfissviðs hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins.

„Þetta kemur sér afar illa þar sem að heyfengur var víða óvenjulítill í fyrra vegna kals og margir gáfu upp allt hey í vor. Reyndar var kal aftur á nokkrum bæjum sem ekki var nú á bætandi. Þar með hafa menn þurft að slá öll tún sem í boði eru auk sinna hefðbundnu túna,“ segir María en bætir við að bændur séu margir enn að heyja og því ekki útséð með heybirgðir vetrarins.

Héðinshöfðabóndinn er brattur

Blaðamaður Vikubaðsins tók rúnt um Tjörnesið á mánudag og stoppaði á Héðinshöfða á bakaleiðinni en þar var sláttur í fullum gangi og ræddi við Jónas Jónasson bónda á Héðinshöfða. Jónas var í óða önn við að slá síðasta túnið og bar sig vel þrátt fyrir dræma sprettu en hann er með um 350 fjár á vetrarfóðrum.

„Þetta var í lagi svona nokkurn veginn en það spratt frekar hægt upp,“ segir Jónas aðspurður um grassprettuna í sumar og tekur undir tal blaðamanns um þurrk.  „Já en ég myndi aldrei segja að það væri of þurrt,“ segir hann og vísar til þess að hann njóti sín ágætlega í veðurblíðunni sem verið hefur í sumar. „Við njótum þess líka hérna að það er mjög þykkur jarðvegur.“

 Man ekki aðra eins tíð

Heyskapur

Jónas segir jafnframt að flest tún hjá sér séu slegin einu sinni nema eitt sem er slegið tvisvar. Blaðamaður spyr hann þá hvort hann muni aðra eins tíð eins og verið hefur í sumar? „Ef ég segðist muna það þá væri ég ruglaður enda er það staðfest af vísindunum að annað eins hefur ekki gerst áður frá því að mælingar hófust. Maður man eftir góðum köflum, kannski hálfum mánuði til þremur vikum með svona blíðviðri en ég held að þetta sé að verða sjö vikur núna,“ segir hann og bætir við að blíðan sé kærkomin á tímum heimsfaraldursins. „Núna kemst maður ekki til Tene og þá kemur Tene bara til okkar,“ segir hann og hlær.

Land Héðinshöfða liggur rétt norðan við Bakka þar sem PCC rekur kísilver sitt. Jónas segist ekki hafa áhyggjur af loftmengun frá nágrönnum sínum. „Mér leiðist hávaðinn í verksmiðjunni á kvöldin í logninu. Það er vissulega smá lykt sem maður finnur en það er bara viðarbrunalykt sem hefur engin raunveruleg áhrif en það er hávaðin sem er leiðinlegastur, maður heyrir þetta best í logninu á kvöldin og það hefur verið nóg af því í sumar.

-Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins á fimmtudag

Nýjast