Drífðu þig í Ungó

Júlíus Júlíusson skrifar

Ég veit að ég hef einhvern tímann sagt það áður hversu magnað það er hvað við höfum gott og kraftmikið leikfélag hér í Dalvíkurbyggð. Ég fullyrði það að þetta mikla starf sem þar er unnið skiptir miklu máli, ekki síst í nútíma þjóðfélagi þar sem að hraðinn er mikill og mannskepnan gerir sífellt minna af því að gefa af sér til félagsmála.  Það er mikil vinna sem liggur að baki því að setja upp leiksýningu í fullri lengd. Ekki má gleyma því að það er stutt síðan að síðasta uppsetning var hjá L.D.
4. apríl sl. frumsýndi Leikfélag Dalvíkur, Grjóthaldiði kjafti, gamanleik, já eða farsa af bestu gerð í leikstjórn Aðalsteins Bergdal. Alli Bergdal hefur unnið gott starf með Leikfélagi Dalvíkur undanfarin ár. Alli er frábær leikstjóri og kann tökin á slíkri vinnu alveg uppá tíu. Hann er einstakur í að ná því besta fram hjá hverjum og einum og setja saman í heildstæða mynd. Farsaformið er eitt það erfiðasta til að takast á við í leikhúsinu, hér hefur allt tekist eins og best verður á kosið. Vel gert Alli.
Það var spenna og gleði í loftinu strax í forstofunni og Guðbjörg Óladóttir lagði línurnar í dyravörslunni með brosi á vör. Leikmyndin er skemmtileg og gaman að sjá nýja útfærslu í Ungó, hún er vönduð og allt vel hugsað og höndunum hvergi til kastað. Leikarahópurinn að þessu sinni var blanda af nýjum og óreyndum leikurum, reynsluboltum og svo var gaman að sjá Sidda Hjöra aftur á sviði og hann flokkast undir það sem er ofan við reynslubolta, ég man bara ekki hvað það er kallað.
Verkið gerist í leikhúsinu og mér fannst leikhópurinn skila þeirri stemmningu vel og mér fannst áhorfendur vera vel með á nótunum. Í hópnum eru gamanleikarar af guðsnáð og það er bara tilhlökkun framundan vegna næstu verka hjá L.D.
Svavar Magnússon leikur leikstjórann sem er kannski erfiðasta hlutverkið þannig lagað séð. Svavar er góður leikari, hann hefur góðan skilning og góðan sviðssjarma, vonandi fáum við að sjá meira af honum á þessu og öðrum sviðum. Kristín Svava Stefánsdóttir startar sýningunni með stæl og ég verð að viðurkenna að eitt örstutt augnablik  hélt ég að eitthvað væri eins og það ætti ekki að vera, en það var nú aldeilis ekki svo. Krístín skilar sínu stóra hlutverki vel, hún er fyndin og á sannarlega vel heima í gamanleikhúsi, það geislar af henni og hún gefur vel af sér til áhorfenda. Kristján Guðmundsson getur leikið gaman og drama jafnvel, hann hefur góðan skilning á hlutverkinu og gefur persónunni dýpt og er fljótur að skipta áreynslulaust á milli. Eydís Jónsdóttir skilaði sinni utan við sig persónu vel og hlaut oft hlátur fyrir. Aron Óskarsson er fæddur gamanleikari og hann nýtur þess og það skilar sér langt fram allan Svarfaðardal, hann átti nokkur “ógeðslega” fyndin móment, hann leikur með öllum líkamanum og í örfá skipti dansar hann hárfínt á línunni að stela ekki senunni en fer aldrei yfir hana. Jenný Heiðarsóttir er nokkuð ný í þessum leikhópi en það er eins og að hún hafi alltaf verið þarna, hún er hlý og gefandi og leikur mjög vel hvort heldur sem að hún hefur orðið eða ekki. Siddi Hjöra skilar sínu mjög vel að vanda, það kom nú smá hlýja í hjartað að sjá hann aftur á sviði, hann hefur engu gleymt, jafnvel bara bætt í ef eitthvað er. Hlutverk hans hentar honum afar vel og hann er fyndinn. Kristján Eldjárn Sveinsson er að ég held nýr á sviði í Ungó. Hann leikur mjög vel og kemur persónu sinni sem er ósofin og stressuð vel til áhorfenda. Það verður gaman að fylgjast með honum á sviði i framtíðinni.  Brynja Sól Guðmundsdóttir er að leika í fyrsta skipti með Leikfélagi Dalvíkur, Brynja er flott sínu hlutverki sem er dálítið snúið, hún er falleg á sviði og snaggaraleg vonandi eigum við eftir að sjá hana aftur með L.D.
Sérstakt hrós fær Pétur Skarphéðinsson fyrir tryggð við Leikfélag Dalvíkur og fagmannlega vinnu, hann skilar alltaf sínu með sóma. Stórt hrós fær líka allt fólkið sem vinnur “á bakvið tjöldin”. Ég þekki það vel hve mikil vinna fer þar fram og ég segi enn og aftur og óska samfélaginu til hamingju með allt þetta frábæra fólk sem er tilbúið að leggja á sig þessa miklu en jafnframt skemmtilegu vinnu. Vinnu sem gleður okkur hin, eflir menninguna en síðast en ekki síst þátttakendurna sjálfa.
Ég hló oft og mikið í Ungó þetta kvöld, hraðinn er oft mikill og stundum varla tími til að hlæja. Kæri lesandi ekki hugsa þig tvisvar um “Drífðu þig í Ungó...já og drífðu alla með þér.

Til hamingju L.D.
Höfundur er búsettur á Dalvík.

 

Nýjast