Dömulegir dekurdagar hefjast á Akureyri í dag og standa fram á sunnudag. Af þessu tilefni er búið að klæða miðbæ Akureyrar bleikum slaufum. Þetta er í fjórða sinn sem þeir eru haldnir en þetta er helgi þar sem vinkonur, systur, mæðgur, frænkur og vinnufélagar njóta þess að gera eitthvað skemmtilegt saman. Hægt er að velja úr fjölda viðburða sem gleðja hjartað og verslanir og fyrirtæki bjóða mörg hver upp á ýmiskonar dömulega afslætti af þessu tilefni.
Á síðasta ári tóku um fimmtíu fyrirtæki þátt en útlit er fyrir að þeim fjölgi þetta árið. Segja má að Dömulegir dekurdagar séu settir í Borgarbíó í kvöld klukkan 20 en þá er dömuleg forsýning á kvikmyndinni "What´s your number" og munu bíógestir fá skemmtilegan glaðning. Hver viðburðurinn rekur svo annan um helgina og má nefna heimsókn í Innbæinn þar sem nokkur fyrirtæki hafa tekið höndum saman um að vera í dömulegum gestgjafagír, tónleikar með Mugison og Bloodgroup á Græna hattinum og Greifarnir verða í Hofi, Konukvöld í Centro, ýmsar fjölbreyttar uppákomur á Glerártorgi, Skvísukvöld í Sjallanum og fleira. Fyrirtæki sem taka þátt í Dömulegum dekurdögum kappkosta að taka vel á móti viðskiptavinum sínum með ýmiskonar uppákomum, tilboðum og dekri.