Dómi í máli slökkviliðsmanns gegn bænum áfrýjað

Akureyrarbær var í febrúar sl. dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra, til að greiða Sigurði Lárusi Sigurðssyni slökkviliðsmanni, tæpar 3 milljónir króna í bætur og 900.000 krónur í málskostnað. Á fundi bæjarráðs í morgun var samþykkt að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Baldvin H. Sigurðsson og Jóhannes Gunnar Bjarnason sátu hjá við afgreiðslu málsins og Oddur Helgi Halldórsson lét bóka að hann væri ekki sammála því að áfrýja dómnum.  

Sigurður Lárus hafði fengið stöðu hjá Slökkviliði Akureyrar í mars 2007 en þegar til kom fékk hann ekki stöðuna, þar sem yfirmenn slökkviliðsins töldu að hann væri hættur við. Sigurður höfðaði mál gegn Akureyrarbæ og krafðist þess að bærinn yrði dæmdur til að greiða sér rúmar 3,4 milljónir króna í skaðabætur og 1,2 milljónir króna í miskabætur. Héraðsdómur féllst á það með Sigurði að Akureyrarbær hafi með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningi aðila og dæmdi bæinn til að greiða honum tæpar 3 milljónir króna í bætur og 900.000 krónur í málskostnað, sem fyrr segir.

Nýjast