Doktorsnám hefst við HA: Stærsti sigur skólans segir rektor

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Einn af drifkröftunum í nýrri stefnu Háskólans á Akureyri, sem nær til ársins 2023, er doktorsnám sem háskólinn fékk heimild til að veita á liðnu skólaári og hefst nú á haustdögum. Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, segir að doktorsnámið muni blása nýju lífi í öflugt rannsóknarstarf á þeim sérsviðum sem skólinn starfar á, í beinum tengslum við samfélagið sem við lifum í, samfélag sem taka mun miklum breytingum á komandi árum.

Eyjólfur segir að á þeim þremur tugum ára sem liðin eru frá því Háskólinn á Akureyri steig sín fyrstu skref hafi margir sigrar náðst. Sá stærsti sé þó án vafa sá að skólanum var á liðnu hausti veitt heimild til doktorsnáms og er nú einn þriggja háskóla hér á landi með slíka heimild.

„Doktorsnámið mun hafa víðtæk áhrif, við sjáum fyrir okkur að hægt verði að dýpka rannsóknir í ýmsum málaflokkum, heilbrigðisvísindum, málefnum norðurslóða og byggðamálum sem og í tengslum við stjórnun og nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvísinda. Á þeim vettvangi geta doktorsnemar leitað nýrra lausna fyrir stefnu íslenskra stjórnvalda í byggðamálum,“ segir Eyjólfur og bætir við að það muni einnig styðja við áform Sjúkrahússins á Akureyri um háskólasjúkrahús.

„Með doktorsnáminu opnast margir, nýjir og spennandi möguleikar. Við erum afskaplega stolt af þessum árangri en að baki lá margra ára vinna fjölda starfsmanna skólans þannig að það var vissulega stór stund þegar málið var í höfn. Það má orða það á þann veg að nú höfum við sem stofnun útskrifast, búin að slíta barnsskónum og höfum sýnt fram á að við erum tilbúin til að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi og starfa samkvæmt alþjóðlegri aðferðarfræði við þekkingarleit.”

Nýjast